24.4.2008 22:31

Fimmtudagur, 24. 04. 08.

Gleðilegt sumar!

Ég þakka þeim fjölmörgu, sem hafa skrifað mér í dag og lýst stuðningi við málstað laga réttar í landinu. Ég ætla ekki að birta hér fleiri bréf frá hinum, sem telja málstað sínum sæma að vera með skítkast í minn garð eða lögreglunnar. Svo eru það hinir, sem hóta leynt og ljóst, að meira valdi verði beitt til að knýja fram afstöðu stjórnvalda sér í vil.

Árásin á lögreglumanninn í dag við hliðið að geymslusvæði flutningabílanna, sem teknir voru í gær, sýnir við hverju lögregla má búast af þeim, sem ekki hafa stjórn á skapi sínu, þegar rætt er um verð á eldsneyti eða hvíldartíma bifreiðastjóra.

Í leiðurum allra dagblaðanna, sem út koma í dag, er lýst stuðningi við framgöngu lögreglunnar í gær. Víða á bloggsíðum er framganga forystumanna bílstjóra gagnrýnd eins og til dæmis hér. Þessi ágæti bloggari fer ekki heldur leynt með skoðun sína. Er það í samræmi við þá meginreglu í lýðræðisþjóðfélagi, að menn ræði saman og leiði mál til lykta án hótana um valdbeitingu. Á meðan menn átta sig ekki á gildi þeirrar reglu, er ekki eftir henni farið.

Ég ritaði í dag pistil hér á síðuna í tilefni af ritstjóraskiptunum á Árvakursmiðlunum.