14.4.2008 20:50

Mánudagur 14. 04. 08.

Í fyrsta sinn veitti ég í dag sjónvarpsviðtal við mbl.is og var spurður um framsalsreglur í tilefni af dagbókarfærslu hér á síðunni í gær og umræðum um framsal á pólskum manni.

Viðtalið var tekið um 16.50 í skrifstofu minni. Þar sagði ég frá því, að handtökubeiðni hefði, að mér skildist, borist til íslenskra stjórnvalda vegna Pólverjans á síðustu klukkustundum fyrir viðtalið. Þarna taldi ég mig vera að segja nokkra frétt, án þess að undirstrika það sérstaklega, en þessa var einskis getið í frásögn mbl.is af viðtalinu.

Ég lét svipuð ummæli falla í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um kl. 17.30. Ég varð þess ekki var, að þau vektu neina sérstaka athygli viðmælenda minna. Raunar hélt ég ekki fréttinni sérstaklega að þeim.

Það var síðan ekki fyrr en í kvöldfréttatíma sjónvarpsins að frá því var sagt í innskoti, að handtökubeiðnin hefði borist síðdegis og Pólverjinn hefði verið handtekinn.

Kastljósið náði í Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í viðtal, eftir að fréttin um handtökuna barst og skýrði hann vel og skilmerkilega frá gangi framsalsmála.

Nú er unnið að því að semja ný lög um framsal með vísan til nýs norræns samnings um framsalsmál og samnings um aðild okkar að evrópsku handtökutilskipuninni. Vænti ég þess, að frumvarpið verði lagt fram á þingi næsta haust.

Ég hélt, að fjölmiðlar teldu fréttnæmast, hvort óskað yrði eftir handtöku og síðan væntanlega framsali á Pólverjanum. Í samtölum við mig var áhuginn mestur á væntanlegum lagabreytingum vegna framsals.