30.4.2008 14:21

Miðvikudagur, 30. 04. 08.

Við minntumst þess í dag, að 100 ár eru liðin frá fæðingu föður míns.

Klukkan 14.00 var ég með systrum mínum, Guðrúnu og Valgerði, í Höfða, þar sem við rituðum undir samkomulag um afhendingu á skjalasafni föður okkar til Borgarskjalasafns en þau Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og Svanhildur Bogadóttir rituðu undir fyrir hönd borgarinnar.

Klukkan 16.00 hófst athöfn í Þjóðmenningarhúsi sem um 160 manns sóttu en þar voru fyrstu rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar veittir í lögfræði og sagnfræði. Jónas H. Haralz, dr. Þór Whitehead og Ragna Árnadóttir fluttu ræður en Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra, stýrði athöfninni með glæsibrag.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri opnaði vefsíðuna www.bjarnibenediktsson.is en starfsmenn borgarskjalasafns hafa annast gerð hennar.

Ég varð ekki var við annað en öllum hafi þótt dagsins minnst á verðugan hátt.