4.4.2008 21:35

Föstudagur, 04. 04. 08.

Hinn 4. apríl 1949 var ritað undir Atlantshafssáttmálann, stofnsáttmála NATO, í Washington. Enginn gat þar á þeim tíma séð fyrir, að í dag, 59 árum síðar, yrði á leiðtogafundi NATO í Búkarest, mótuð leið fyrir Georgíu og Úkraínu inn í NATO. 

Á fundinum var einnig samþykkt áætlun Bandaríkjastjórnar um eldflaugavarnir með búnaði í Póllandi og Tékklandi, þrátt fyrir harðorð mótmæli Rússa. Þau eru illskiljanleg, því að í raun snertir þetta Rússa ekki neitt.  Ef ætlun NATO væri að verjast eldflaugum Rússa, yrðu varnarvirki líklega  á Bretlandi og hér á Íslandi.

Ronald Reagan hafnaði samkomulagi við Mikhaíl Gorbatsjov um fækkun kjarnorkuvopna á fundinum í Höfða árið 1986. þegar Gorbatsjov neitaði að fallast á ákvörðun Reagans um eldflaugavarnir. Nú hefur NATO fallist á að slíkur varnarviðúnaður verði í Póllandi og Tékklandi, en hann beinist ekki gegn Rússlandi heldur Íran.

Eitt er að líta á viðbúnaðinn. Annað er að huga að stað fyrir hann. Tékkar telja, að búnaðurinn, þótt honum sé ekki beint gegn Rússum, sé trygging þeirra gegn enduríhlutun Rússa í innri málefni Tékklands - Bandaríkjamenn veiti þeim tvíhliða tryggingu með því að reka ratsjárstöðvar í landi þeirra.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, stóðu að hinum sögulegu ákvörðunum í Búkarest fyrir hönd Íslands.

Í enskri útgáfu þýska vikuritsins Der Spiegel segir meðal annars um leiðtogafundinn í Búkarest:

„There are completely different conceptions of who is protecting whom against whom and by what means. The alliance is militarily bigger and more powerful than ever -- yet politically weaker than it has ever been. There is a deep rift when it comes to all the important questions: On the one side the Americans and their friends in Eastern Europe, on the other the Germans, the French and their neighbors -- "Old Europe," in other words. And in the vain attempt to prevent these differences coming to the fore, the members in Bucharest preferred to postpone all important questions until the next summit. “

Þegar þessi orð eru lesin, má huga að því, sem sagt var um leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs strax að honum loknum og síðan hvaða dóm sagan hefur fellt um hann.