1.4.2008 22:46

Þriðjudagur, 01. 04. 08.

Tók þátt í aprílgabbi með fréttastofu hljóðvarps ríkisins og ræddi um gildi þess að varðveita stríðsminjar við Reykjavíkurflugvöll, sem fundist hefðu við framkvæmdir við Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. (Ég er viss um, að væru þessar framkvæmdir á hálendinu væru vikulega ef ekki daglega myndir af þeim í fjölmiðlum í tengslum við áhuga á umhverfisvernd.)

Einkennilegt er að heyra sjónarmið þingmanna um skort á rökum túlkuð á þann veg, að þeir séu á móti breytingum, sem taka mið af verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Hvers vegna er ekki beðið eftir rökunum, ef þau skortir? Eða spurt um þau?

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, voru ráðherrar, þegar ríkisstjórnin mótaði þá stefnu við brottför varnarliðsins, að laga ætti stjórnkerfi á Keflavíkurflugvelli að stjórnarrráðsreglugerðinni. Þau hreyfðu þá engum fyrirvörum varðandi löggæslu og tollgæslu. Hvers vegna nú?

Siv fer með rangt mál, þegar hún segir mig hafa kynnt breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrst á vefsíðu minni. Hvers vegna?

Mörgum hefur þótt Framsóknarflokkurinn liggja of vel við höggi,  til að tæki því að slá til hans. Vilji hann stilla sér upp til orrustu, er sjálfsagt að taka slaginn.

Hitti Alan M. Dershowitz, lagarprófessor við Harvard, sem hér er á fyrirlestraferð. Hann er ekki aðeins þekktur sem prófessor og höfundur margra bóka, heldur einnig sem verjandi, t.d. O. J. Simpsons.