9.4.2008 10:07

Miðvikudagur, 09. 04. 08

Helsta frétt á forsíðu Fréttablaðsins er um, að þingflokkur Samfylkingar hafni breytingum á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í Morgunblaðinu má hins vegar lesa, að þingflokkurinn telji sig þurfa meiri tíma og upplýsingar um málið.

Í Fréttablaðinu segir:

„Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins telja þingmenn Samfylkingarinnar breytingarnar óskynsamlegar og ekki í takt við tilmæli sem komið hafa frá Ríkisendurskoðun í skýrslu um ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna. Í henni segir meðal annars að móta eigi heildarstefnu til nokkurra ára í tollamálum fyrir landið allt.“

Í skýrslu ríkisendurskoðunar, sem þarna er nefnd, er einmitt hreyft hugmyndum um, að öll tollgæsla í landinu verði sameinuð undir einn hatt á forræði fjármálaráðuneytis. Tillagan um breytingar á Suðurnesjum er skref í þá átt. Má skilja fréttina þannig, að þingmenn Samfylkingar geti felt sig við breytingar á Suðurnesjum, ef sama gildi um tollgæslu í landinu öllu? Hefur einhvers staðar komið fram, að það sé ekki langtímamarkmið fjármálaráðuneytis?

Frétt Fréttablaðsins er í senn misvísandi og segir ekki söguna alla. Tilefni breytinga á embættinu á Suðurnesjum nú er, að lögreglustjóri telur ekki unnt að reka embættið innan fjárheimilda. Lögreglustjóri lagði fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið tillögu um uppsagnir og uppbrot embættisins til að mæta þessum vanda. Með þær tillögur í farteskinu tel ég skynsamlegra að fara þá leið, sem nú hefur verið kynnt.

Þingmennirnir Lúðvík Bergvinsson, Gretar Mar Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Árni Johnsen lýsa mestum efasemdum um ágæti þess, að einstakir starfsþættir innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum falli undir rétt ráðuneyti. Kristinn H. hefur myndað sér skoðun, þótt hann segi í hinu orðinu, að hann þurfi að heyra álit ríkisendurskoðunar. Þeir telja sig allir tala máli lögreglustjórans á Suðurnesjum og samstarfsmanna hans. Sumir þeirra segja, að viðleitni til að koma embættinu út úr krónískum fjárhagsvanda byggist á persónulegri óvild í garð lögreglustjórans!