8.4.2008 19:43

Þriðjudagur, 08. 04. 08.

Góðar fréttir berast um, að tollverðir hafi fundið fíkniefni á Keflavíkurflugvelli. Samstarf tollvarða og lögreglumanna er hvarvetna mikilvægt og þar skiptir greiningarstarf ekki síst máli. Er ánægjulegt að fylgjast með því, hve samstarf hefur eflst milli toll- og löggæslu undanfarið. Fráleitt er að gera því skóna, að fyrir nokkrum stjórnmálamanni vaki að reka fleyg í þetta nána samstarf.

Árvekni við landamæravörslu er ekki síður mikilvæg en tollgæsla. Öflug varsla við landamærin byggist meðal annars á því að nýta sér gagnagrunna við greiningu og áhættumat. Áhersla á upplýsingaöflun í þágu slíkrar greiningarvinnu er sífellt að aukast.

Samhliða því sem tollverðir hafa auga með ferðamönnum og farangri þeirra hafa landamæraverðir auga með því, hverjir koma til landsins. Þessa starfsemi þarf að tengja í samræmi við lög og reglur.