16.4.2008 21:58

Miðvikudagur, 16. 04. 08.

Franco Frattini, sem farið hefur með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og þar með Schengen-málefni, verður væntanlega utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Ítalíu. Hann hefur komið tvisvar til Íslands sem ferðamaður og þekkir til dæmis vel til Vatnajökuls, þar sem hann hefur farið á skíðum.

Þegar ég hitti hann síðast á einkafundi, barst talið að áformum hans um framboð í þingkosningunum nú um síðustu helgi. Hann var sigurviss. Ég sagði, að það yrði ekki hagur okkar Íslendinga, að svo góður vinur hyrfi úr framkvæmdastjórninni. Þá sagði hann, að ekki yrði verra að eiga vin í ríkisstjórn Ítalíu!