23.4.2008 9:27

Miðvikudagur, 23. 04. 08.

Í kvöld birtist þessi frásögn á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu:

„21 handtekinn og lagt hald á 16 ökutæki

Tuttugu og einn maður var handtekinn í aðgerðum lögreglu á Suðurlandsvegi við Norðlingaholt í dag og lagt var hald á sextán ökutæki. Aðdragandi málsins var sá að vöruflutningabílstjórar lögðu bílum sínum á fyrrnefndum stað í morgun og lokuðu fyrir umferð. Kom til átaka og þurfti lögreglan m.a. að beita varnarúða en áður höfðu bílstjórarnir hunsað ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að færa bílana úr stað. Einn lögreglumaður slasaðist í átökunum en sá fékk grjót í höfuðið og var fluttur á slysadeild. Hann er ekki alvarlega slasaður.

Í hópi hinna handteknu voru umráðamenn ökutækja sem neituðu að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu. Til rannsóknar eru ætluð brot þeirra gegn 168. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 27. gr. umferðarlaga, röskun á umferðaröryggi á alfaraleiðum og að hafa lagt ökutæki á þeim stað að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferðina.

Mannfjöldastjórnunarhópar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stjórnuðu og sáu um aðgerðir á vettvangi. Þeim til aðstoðar voru nokkrir sérsveitarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra.“

Þetta hefur að sjálfsögðu verið helsta fréttaefni í dag og var rætt við mig um það í hljóðvarpi ríkisins, Stöð 2 og sjónvarpi ríkisins.

Ég hef einnig fengið tölvubréf um málið og meðal annars þetta frá Arnóri Jónssyni, en hann þakkar fyrir orðrétta birtingu þess:

„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands “

Þá fékk ég þetta bréf:

„Þú sem dómsmálaráðherra berð ótakmarkaða 'ABYRGÐ á lögregluaðgerum á suðurlandsvegi um klukkan 11 í morgun sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir.

EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!

Hilmar Bjarnason 050459-2179“


Ég fékk einnig þessa kveðju:

„Þar sem ég finn ekki tolvupóstfangið þitt fannst mér ég verða að senda þér skilaboð hér. Ég vona af ollu minu hjarta að þú fáir banvænan og sársaukafullann sjúkdóm og lifir sem lengst í þjáningum, kannski gerir þér grein fyrir hversu mikil mannfýla þú ert undir þeim kringumstæðum, valdasjúkur ofbeldisseggur og geðsjúklingur. Þið ráðherrar og þingmenn þurfið að athuga ykkar gang.
Kveðja, Snorri. “

Tveir alkunnir bloggarar lýstu svipuðum skoðunum. Þráinn Bertelsson sagði:

„Ábyrgðina á þessum vopnaða skríl ber dómsmálaráðherra Íslands. Það er kominn tími til að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd sem rannsakar hin geðveikislegu viðbrögð við mótmælaaðgerðum trukkabílstjóra.

Það má vel vera að aðgerðir bílstjóranna sem virðast helst beinast gegn óbreyttum borgurum séu pirrandi - en þessi ofsafengnu viðbrögð lögreglu eiga aðeins heima í lögregluríki.

Ég mótmæli því að hafa lengur yfir mér hernaðardýrkandi dómsmálaráðherra með geðvillta ofbeldisseggi í sinni þjónustu. Aðrir en geðvillingar beita varnarlaust fólk ekki ofbeldi.“

Jónas Kristjánsson sagði:

„Lögregluóeirðir fasista
Lögregluóeirðir urðu í dag á Suðurlandvegi. Löggan réðst á mótmælendur og úðaði pipar, svo að nokkrir urðu að fá læknishjálp. Næst verður löggan með rafbyssur. Þetta heitir mannfjöldastjórnun á máli fasista. Þeir telja, að löggan eigi að stjórna mótmælum og að þau megi ekki raska neinu. Fasistar eru andvígir truflunum á gangverki þjóðfélagsins. Þeir vilja berja þá, sem trufla gangverkið, keyra þá niður, úða þá með pipar og bráðum gefa þeim rafstuð. Löggan hefur rangar hugmyndir um lýðræði. Mótmæli eru eðlilegur þáttur þess og mega valda röskun. Burt með fasista ríkislögreglustjórans.“

Spyrja má, hvar annars staðar á byggðu bóli, tveir fyrrverandi ritstjórar, sem ætla má, að vilji láta taka sig alvarlega í umræðum um mál líðandi stundar, skrifuðu þannig um ólögmæta atvikið, sem varð í dag til þess, að lögreglan lét til skarar skríða.

Jónas hefur svo oft hrópað fasisti! fasisti!, að orðið hefur ekki lengur neina merkingu samkvæmt orðabók hans, þótt aðrir telji hann fara langt út fyrir hófleg mörk. Þráinn kallar lögreglumenn „geðvillta ofbeldisseggi“ og vill væntanlega, að mark sé á sér tekið. Eða hvað? Hann er jú alltaf að reyna að vera svo fyndinn.

Fór síðdegis í Borgartún 26, þar sem lögmannsstofan LEX opnaði skrifstofu sína í glæsilegu, nýju húsnæði.