20.4.2008

Orkuveita i ógöngum

Á ruv.is laugardaginn 19. apríl stendur:

„REI málið virðist enn óútkljáð meðal sjálfstæðismanna og flokkurinn verður að hreinsa andrúmsloftið til að virka trúverðugur í Reykjavík, segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir leyndarhyggju í stjórnun orkuveitunnar.

Birgir segir að það sé nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sérstaklega, að taka málið föstum tökum.

,,Ég held að það megi orða það þannig að í ljós hafi komið að REI málið hafi ekki verið klárað í fyrri umferðinni og ekki rætt til hlítar. Nú komi fram mjög misvísandi skilaboð, í fyrsta lagi innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks og ekki síður milli borgarstjóra og sjálfstæðismanna," segir Birgir. Ágreiningur virðist ríkja innan flokksins og hreinsa þurfi loftið. Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að virðast heilsteyptur út á við til að vera valkostur í Reykjavík.

Önnur umferð REI málsins virðist vera hafin, en meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna féll í haust vegna deilna um framtíð fyrirtækisins. Í skýrslu þverpólitísks stýrihóps um REI málið kemur meðal annars fram að REI eigi að vera að fullu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Og að fyrirtækið eigi að sinna útrásarverkefnum. Gísli Marteinn Baldursson átti sæti í þessum stýrihópi, en hann sagði í síðdegisútvarpi Rásar 2 á fimmtudag [17. apríl] að hann vildi að REI yrði selt.

Í Kastljósi Sjónvarpsins sagði Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, að ekki kæmi til greina að REI yrði selt og vísaði í skýrslu stýrihópsins. REI ætti að vera að fullu í eigu almennings. Í sama viðtali sagði borgarstjóri hins vegar að niðurstaða stýrihópsins útilokaði ekki að selja mætti REI.

Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Ásta Þorleifsdóttir frá F lista lögðu fram tillögu á stjórnarfundi orkuveitunnar í gær [föstudag 18. apríl] um að hugað yrði að sölu á verkefnum REI, megintilgangur orkuveitunnar sé ekki að taka þátt í áhættufjárfestingum erlendis. Tillögunni var frestað.

Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun [laugardag 19. apríl]. Þar sagði hann greinilegt að ekki væri samstaða innan meirihlutans um REI málið. Borgarstjóri hafi ítrekað í Kastljósi í fyrrakvöld [fimmtudag 17. apríl] að REI eigi áfram að vera í eigu orkuveitunnar en komi síðan með allskonar útúrsnúninga um að stýrihópurinn hafi ekki útilokað eitt og annað. Í Fréttablaðinu í gær [18. apríl] sé svo sagt að það standi til koma með tillögu á stjórnarfundi um að selja. Í blaðinu í dag [19. apríl] sé síðan skýrt frá því að í gærmorgun [18. apríl] hafi þessari tillögu verið breytt og eftir barning við borgarstjóra hafi verið komist að niðurstöðu um að hefja verðmat og draga REI útúr áhættufjárfestingum í útlöndum.

,,Sem er algjörlega kostulegt því REI er stofnað til að vera í áhættufjárfestingum í útlöndum. (..Annars) þyrfti það ekki að vera til því orkuveitan sér um hin málin innanlands. (...) Það voru komnir á samningar við Geysi Green um aðkomu að REI fyrir marga milljarða, sem því miður varð ekki af. Ég tel að slíkar markaðsaðstæður komi ekki upp aftur að hægt verði að fá slíkar upphæðir fyrir félagið því heimsmyndin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum breyttist bara nokkrum vikum síðar. Ég óttast það núna, ef að niðurstaðan er sú að þeir muni losa sig frá REI, eins og þeir segja, hætta í áhættusömum fjárfestingum, hætta í verkefnum erlendis, osfrv. og nánast gefa það frá sér, að þá sé verið að gefa frá sér mjög mikil verðmæti sem orðið hafa til í krafti almannafyrirtækis á löngum tíma," segir Björn Ingi.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, var líka gestur í Vikulokunum. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn í rauninni höfuðlaus her (svo!). Það sé í upplausn hver leiði flokkinn og hverjir séu talsmenn flokksins í REI málinu. Mismunandi fulltrúar komi fram og segja mismunandi hluti. Það sem eftir stendur í lok vikunnar sé að REI málið sé aftur komið í upplausn og borgarbúar viti ekki hver stefna meirihlutans í Reykjavík sé um REI.

Sjálfstæðismenn hafa ekki borið gæfu til að halda á REI málinu á nægilega traustvekjandi hátt. Þetta er mat Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Í pistli á heimasíðu sinni segir hann að leyndarhyggja sé innbyggð í stjórnarhætti Orkuveitu Reykjavíkur og að borin von sé að óbreyttu að tekið sé á málefnum fyrirtækisins á þann veg sem sæmi fyrirtæki í opinberri eigu. Björn gagnrýnir framsóknarmenn í borginni líkt og aðra sem sitja í minnihluta, segir 100 daga stjórnina hafa skotið sér undan málinu og að meiri kröfur séu gerðar til sjálfstæðismanna en annara borgarfulltrúa. Hann gagnrýnir einnig samflokksmenn sína og [hér hefði farið betur á að nota orðið en] segir þá skorta afl til að standa eina að launs málsins, á meðan borgarfulltrúar beri ekki gæfu til að mynda neinn meirihluta um að sigla OR úr þessari villu sé haldið áfram á ógæfubraut fyrir sjálfstæðismenn og alla aðra í borgarstjórn.“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformaður REI segir að engin ósamstaða ríki innan borgarstjórnar, þar sé full samstaða um að skoða að verkefni REI verði seld.“

 

Þessi frásögn af því, sem er að gerast í stjórn OR og borgarstjórn einmitt þessa daga, ber of mikil merki þess, að sá, sem hana semur, hefur ekki fyrir öðru en rétt skafa af yfirborðinu. REI-málið ristir miklu dýpra en svo, að unnt sé að kalla borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna einan til ábyrgðar. Vissulega ber hann mikla ábyrgð í öllu tilliti. Hann er öflugasta stjórnmálaaflið innan borgarstjórnar. Sjálfstæðismenn mynda hins vegar ekki hreinan meirihluta í borgarstjórn og þurfa þess vegna samstarf við aðra til að sigla OR/REI á lygnan sjó með hagsmuni Reykvíkinga að leiðarljósi.

Margt bendir til þess, að í samvinnu við eins-manns-flokk takist sjálfstæðismönnum þetta ekki – það eigi ekki aðeins rætur að rekja til ágreinings milli þeirra og samstarfsmannsins heldur einnig mísmunandi sjónarmiða innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Vægi þess ágreinings verður meira í samstarfi við eins-manns-flokk en ef samstarf tækist um fjölskipaðri meirihluta. Ég hef hvatt til þess, að innan borgarstjórnar reyndu menn til þrautar að mynda slíkan meirihluta, sem tæki markvisst á innanmeinum í stjórnsýslu borgarinnar og þar á meðal Orkuveitu Reykjavíkur.

Ástæða er til að lýsa sérstakri undrun yfir því, að á ruv.is  skuli vitnað í Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúa, eins og hann sé marktækur álitsgjafi um OR/REI. Björn Ingi klauf meirihlutasamstarf við sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að hann taldi, að hætta ætti fé okkar, sem eigum ekki annarra kosta völ en skipta við OR, í fjárfestingar með FL Group. Sætir furðu, að Björn Ingi haldi áfram að tala eins og milljarðir séu innan seilingar bara ef menn binda trúss OR við fjárfesta á borð við FL Group, sem að vísu má nú muna sinn fífil fegri, eins og allir vita.

Vandi OR/REI er ekki einkamál sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Viðfangsefnið er miklu víðtækara bæði innan lands og utan. Á óheillabrautinni síðastliðið ár var ráðist í samstarfsverkefni í nafni OR/REI, án þess að gerð væri grein fyrir inntaki þeirra opinberlega. Raunar er ekki vitað, hvaða verkefni er hér um að ræða. Hið nýja, sem gerst hefur síðustu daga, er, að innan meirihluta stjórnar OR vilja menn kortleggja og verðmeta þessi verkefni. Er það enn til marks um leyndarhyggju, að þetta skuli ekki allt hafa verið birt stjórninni og borgarstjórn nú þegar.

 

Fjölmiðlar hafa beint mestu kastljósi að einu verkefni, enda var til þess stofnað með nokkru brambolti, þegar Ólafur Ragnar Grímsson og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, stóðu með Bill Clinton á palli í New York. Um þetta hef ég skrifað tvisvar í tímaritið Þjóðmál en þær greinar eru einnig birtar hér á síðunni. Í síðari greininni segir meðal annars:

„Í grein minni í síðasta hefti Þjóðmála vék ég að því, þegar þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, stóðu á palli með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York, þar sem Clinton heiðraði þá fyrir að lofa 8 til 9 orkumilljörðum Reykvíkinga á næstu fimm árum til fjárfestinga í Djíbúti, einu fátækasta ríki Afríku. Ég segi: „Spyrja má: Með samþykki hverra var loforðið við Clinton gefið — borgarstjórnar eða borgarráðs Reykjavíkur? Um þetta eins og allt annað í þessu máli vaknar spurningin: Hverjir hafa í raun umboð til að ráðstafa orkumilljörðunum? Engin umgjörð breytir nauðsyn þess, að menn hafi heimildir til að ráðstafa eignum annarra.“

Í „tímaröð“ í skýrslu stýrihópsins [sem skipaður var af 100 daga meirihlutanum í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar] segir: „Þann 28. september 2007 er greint opinberlega frá samkomulagi þar sem REI skuldbindur sig til að fjárfesta að lágmarki 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 9 milljarða íslenskra króna á næstu fimm árum í jarðvarmavirkjunum í Austur-Afríku m.a. í Djibouti.“

Því miður kemur ekki fram í skýrslunni, hvernig staðið var að því að efna þessa tilkynningu um fjárfestingar í Djíbútí. REI og GGE höfðu ekki runnið saman í nýtt REI á þessum tíma. Eins og mál hafa þróast er líklegt, að loforð Ólafs Ragnars og Guðmundar á pallinum með Clinton verði ekki efnt nema með álögum á kaupendur þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur.“

 

Kjartan Magnússon, núverandi stjórnarformaður OR og REI, fór til Djíbúti á dögunum með Guðmundi Þóroddssyni og Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra.

Í fréttum Stöðvar 2 14. apríl sagði:

„Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Reykjavik Energy Invest og ríkisstjórnar Djíbútí um undirbúning að hugsanlegri jarðvarmavirkjun þar í landi. Kjartan Magnússon, stjórnarformaður REI, segir ekki um áhættufjárfestingu að ræða en samningurinn gæti kostað REI nokkur hundruð milljónir. [Talan 300 milljónir hefur verið nefnd í þessu sambandi og raunar virðist litið á þá fjárhæð eins og skiptimynt í þessu dæmi öllu.]

Með samkomulaginu er verið að undirbúa hugsanlega jarðvarmavirkjun í Afríkuríkinu Djíbútí. En kanna á hversu hagkvæmt er að nýta jarðhita þar í landi við raforkuframleiðslu. Þeir Kjartan Magnússson, stjórnarformaður REI og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd REI. Og segir Kjartan að samkomulagið hafi verið gert með samþykki stjórnar REI. Samkomulagið var hins vegar ekki borið undir stjórn orkuveitunnar áður en það var samþykkt.

Kjartan Magnússon: Það verður kynnt í stjórn orkuveitunnar á á föstudaginn en eðli málsins samkvæmt þá er ekki kveðið á um það því að REI er dótturfélag með sjálfstæða stjórn.

Kjartan telur ekki að verkefnið feli í sér áhættufjárfestingu fyrir REI og segir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa vitað af samkomulaginu áður en það var gert og þeim hafa litist vel á það.

Kjartan Magnússon: Þarna erum við að taka þátt í hagkvæmniathugun sem að verður að verulegu leyti fjármögnuð með erlendu fé.

Kjartan telur að heildarkostnaður við verkefnið verði 1 - 1,5 milljarður króna en stefnt sé að því að fá erlent fjármagn að stórum hluta þar inn.

Lillý Valgerður Pétursdóttir: Hver er kostnaður REI við þetta ?

Kjartan Magnússon: Það hefur ekki komið í ljós en hann gæti numið nokkrum hundruðum milljónum króna.“

Athyglisvert er við þessa frétt, að hún skuli ekki tengd hinni hátíðlegu athöfn í New York 28. september 2007.

 

Í fréttum hljóðvarps ríkisins að morgni 16. apríl sagði:

„Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Reykjavíkur Energy Invest, segir að ef fyrirtækið fer í stórar framkvæmdir þurfi fjármagn í það að koma frá fjárfestum. Þá væri REI hlutafélag þar sem margir ættu aðkomu. Þessi orð Kjartans féllu á borgarstjórnarfundi í gær [15. apríl] þar sem stefna meirihlutans í orkumálum var tekin til umræðu að beiðni Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Tilefnið var ferð Kjartans og fleiri stjórnarmanna í REI til Djibúti og Eþíópíu þar sem m.a. var skrifað undir viljayfirlýsingar. Óskar segir það sýna að REI sé enn á fullu í útrás.

Óskar Bergsson: Það sem hins vegar skýtur verulega skökku við í þessu máli öllu er að það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er í forystu þessara verkefna. Sjálfstæðisflokkurinn sem lengst hefur gengið í gagnrýni sinni og stundum árásum á Orkuveitu Reykjavíkur vegna verkefna sem sami flokkur hefur talið að ætti heima hjá einkaaðilum en ekki opinberum aðilum.

Sagði Óskar og vísar í gagnrýni sjálfstæðismanna síðastliðið haust en þá töldu þeir m.a. að orkuveitan ætti ekki að vera í útrásarverkefnum. Kjartan Magnússon segir deilurnar í haust hafa fyrst og fremst verið um hversu mikið ætti að setja í útrásarverkefni. REI væri nú að fylgja eftir verkefnum sem þegar væru hafin. Ef ákveðið yrði að fara út í stór verkefni þyrfti aukið fjármagn og það yrði ekki tekið frá orkuveitunni.

Kjartan Magnússon: Til þess að taka slíkt fjármagn inn í fyrirtækið, af því að það kemur ekki frá orkuveitunni, þá þyrfti það að koma annars staðar frá, þá þyrfti það að koma frá fjárfestum og ef við færum þá leið þá þyrftum við að opna, opna fyrirtækið fyrir, opna fyrirtækið fyrir, fyrir, fyrir fjárfestum og þá væri REI, þá væri REI orðið, orðið, orðið hlutafélag þar sem margir, margir, margir ættu aðkomu. Ég í sjálfu sér ég er ekkert viss um að það yrði slæm þróun, þetta er auðvitað eitthvað sem menn, menn verða að skoða.“

 

Í fréttum sjónvarps ríkisins klukkan 22.00 16. apríl sagði:

„Vel kemur til greina að selja einkaaðilum hluti í Reykjavík Energy Invest, dótturfélagi Orkuveitunnar. Þetta segir Kjartan Magnússon stjórnarformaður REI og orkuveitunnar. Hugsanlegt orkuver REI í Afríkuríkinu Djíbútí, gæti kostað nærri 30 milljarða króna.

Unnið hefur verið að rannsóknum í Djíbútí, frá í febrúar í fyrra, þær ganga vel og nú á að bora tilraunaholur. Þar er mikill jarðhiti, sem líklega er hægt að virkja. REI hefur til þess einkaleyfi. Niðurstaða á að liggja fyrir í lok ársins. REI hefur þegar lagt út nokkra tugi milljóna, og eyrnamerkt verkefninu 300 milljónir króna í viðbót. Menn gera sér vonir um að reisa allt að 100 megavatta orkuver, sem gæti kostað, 20 til 30 milljarða króna. Ekki stendur til að skuldbinda REI eða orkuveituna, umfram það sem kostar að rannsaka málið, heldur á að fjárfesta að verkinu. Til greina kemur líka að fá fjárfesta beint inn í REI.

Kjartan Magnússon: Það eru margir möguleikar, það gætu einkaaðilar komið inn í REI, þeir gætu þess vegna keypt fyrirtækið.

Sagði Kjartan í Kastljósinu en hann segir félaga sína í borginni upplýsta. Útrás REI og samkrull borgarinnar og einkafyrirtækja, sættu hins vegar mikilli gagnrýni í haust sem leið, ekki síst frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks. Þá stóð til að sameina REI og Geysi Green Energy.

Kjartan Magnússon: Það var ansi óheppilegar staðið að því máli öllu.

Helgi Seljan: Þannig að í prinsipinu voruð þið ekkert á móti því.

Kjartan Magnússon: Ég er alls ekkert á móti Geysi Green eða ég er alls ekki í móti þátttöku einkaaðila í þessum rekstri, alls ekki en menn þurfa að gæta sín svolítið, þegar að menn eru farnir að blanda þessu mikið saman, opinberum rekstri og einkarekstri og ég held að það hefði bara þurft að stand miklu betur að málum í haust en afkoma einkaaðila að slíkum verkefnum, ég fagna henni heilshugar.“

 

Morgunblaðið birti hinn 17. apríl forystugrein um afstöðu borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna til OR/REI og líklega hefur aldrei fyrr í sögu blaðsins verið talað á þennan veg til borgarstjórnarflokksins. Þar sagði:

„Sex af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins geta ekki verið þekktir fyrir það stefnuleysi og þann hringlandahátt, sem þeir eru orðnir berir að í borgarstjórn Reykjavíkur varðandi þátttöku Reykjavík Energy Invest, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, í útrás á orkusviði.

Á borgarstjórnarfundi í fyrradag [þriðjudaginn 15. apríl] kom skýrt í ljós, að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru að hverfa frá fyrri afstöðu og taka upp í meginatriðum þá stefnu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þáverandi borgarstjóra, og Framsóknarflokksins, sem mestar deilur urðu um sl. haust varðandi útrásarverkefni Orkuveitunnar og leiddu til þess að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll.

Á bak við hringlandahátt borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er ótrúlegt stefnuleysi og dómgreindarleysi þeirra, sem þarna ráða ferðinni.

Aldrei í sögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hefur flokkurinn beðið slíkan hnekki og sýnt af sér slíka lágkúru.

Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það væri óskemmtileg lesning ef einhver tæki upp á því að gefa út Þeirra eigin orð um Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er orðið alveg ljóst, að borgarstjórnarflokkurinn ræður ekki við þau verkefni, sem honum hafa verið falin að óbreyttu. Þetta er hörmulegt en því miður veruleiki. Og augljóst, að þessi niðurlæging borgarstjórnarflokksins er farin að hafa áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum.

Þegar hér er komið sögu er ekki um annað að ræða en að forysta Sjálfstæðisflokksins láti málefni borgarstjórnarflokksins til sín taka. Borgarstjórnarflokkurinn er gersamlega forystulaus og þar virðist enginn einstaklingur vera, sem er tilbúinn til að taka af skarið og leiða flokkinn inn á nýjar brautir. Þess vegna er vandamál borgarstjórnarflokksins orðið að vandamáli flokksforystu Sjálfstæðisflokksins.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eiga kröfu á annars konar frammistöðu en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sýndu í umræðum í borgarstjórn sl. þriðjudag.

Þær röksemdir, sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, hafði uppi á borgarstjórnarfundinum til þess að útskýra afstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, eru fyrirsláttur. Það er nóg komið af þessari endemis vitleysu.“

 

Ekki er réttmætt af ritstjóra Morgunblaðsins að skjóta þessu máli út úr borgarstjórn Reykjavíkur. Þar verða menn að koma sér saman um niðurstöðuna og hvergi annars staðar. Sjálfstæðismenn ráða þar ekki einir ferð, þeir verða að treysta á samstarf við aðra. Sex borgarfulltrúar sjálfstæðismanna vildu ekki sætta sig við málatilbúnaðinn innan OR og REI í nafni útrásar á kostnað borgarbúa í október 2007. Fyrir atbeina sexmenninganna var unnt að afstýra því hneyksli. Dagur B. Eggertsson hvatti þá eindregið til, að stofnað yrði til verkefna með Geysi Green og þar með FL Group.  Björn Ingi Hrafnsson var ekki samstiga sexmenningunum og myndaði nýjan meirihluta, sem hafði síðan ekki neitt afl til að leysa málið og lét sér en kanna málið í 100 daga valdatíð sinni og stunda jafnframt þagnarbindindi um OR/REI.

Gagnrýni Morgunblaðsins á sjálfstæðismenn fyrir hringlandahátt í borgarstjórn er réttmæt, ef þeir eru að fara aftur inn á sömu óheillabraut og þeir fetuðu með Birni Inga. Spryrja má: Eru þeir að gera það?

 

Gísli Marteinn Baldursson, formaður borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, sagði, að hann og félagar hans vildu selja REI. Síðan kom fram, að Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri,virtist ekki sömu skoðunar. Ásta Þorleifsdóttir er í flokki með Ólafi og situr sem slík í stjórn OR, þar sem hún er varaformaður. Stjórnin kom saman föstudaginn 18. apríl. Að loknum þeim fundi birtist þessi frétt klukkan 18.00 hinn 18. apríl í hljóðvarpi ríkisins:

„Fulltrúar Sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur lögðu til á stjórnarfundi í dag að gert yrði verðmat á REI og verkefnum þess. Tillögunni var frestað að beiðni minnihlutans. Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur segir hugmyndina vera að selja einstaka verkefni REI. Varaformaður stjórnar vill ekki selja REI núna.

Í tillögunni kemur fram að megintilgangur Orkuveitu Reykjavíkur sé að tryggja notendum á heimamarkaði góða þjónustu en ekki að taka þátt í áhættufjárfestingum erlendis. Úttektina eigi að gera með það fyrir augum að REI geti einbeitt sér að ráðgjöf og þróunarverkefnum en hugað verði að sölu á öðrum verkefnum. Afgreiðslu tillögunnar var frestað að beiðni fulltrúa Vinstri - grænna og Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjartan Magnússon, stjórnarformaður orkuveitunnar, segist ekki líta svo á að tillagan sé undirbúningur að því að selja REI. Fyrirtækið verði áfram í eigu orkuveitunnar.

Kjartan Magnússon: Það er með mörg verkefni innanborðs og við viljum lágmarka áhættuna. Ég sé fyrir mér að við getum selt verkefni út úr fyrirtækinu.

Rúnar Snær Reynisson fréttamaður: Er þetta þá ertu þá með þessu að segja að REI sé að draga sig út úr þá jafnvel stórum hluta þeirra verkefna sem það er að fást við núna ?

Kjartan Magnússon: Ég ætla ekki að spá neinu um það á þessu stigi, það gæti farið svo. Mér finnst aðalatriðið vera það að lágmarka áhættuna.

Um þau ummæli Gísla Marteins Baldurssonar að Sjálfstæðismenn ættu að marka þá stefnu að selja REI, sagði Kjartan.

Kjartan Magnússon: Við Gísli erum yfirleitt nokkuð sammála í þessum málum. Ég ætla að láta mína persónulegu skoðun liggja á milli hluta að þessu sinni við erum núna að finna leið sem að vonandi sem flestir flokkar geti sameinast um.

Kjartan sagði að sátt væri um þessa tillögu innan meirihlutans í borgarstjórn. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um hvað rætt var á fundi meirihlutans í gær, en Fréttablaðið greindi frá því í dag að þar hefði verið ákveðið að leggja til að REI yrði selt. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar orkuveitunnar, segir nauðsynlegt að vita hvaða verðmæti séu í hendi.

Ásta Þorleifsdóttir: Og ég held að það sé bara bráðnauðsynlegt fyrir okkur að hefja smá naflaskoðun á því að takmarka okkur. Velja okkur verkefni þar sem sérþekking orkuveitunnar nýtur sín best á svæðum þar sem hún nýtur sín best. Það er kannski sú stefnumótunarvinna sem framundan er og hefði svo sannarlega mátt vera betur orðuð í tillögunni.

Rúnar: En vill Ásta að REI verði selt ?

Ásta Þorleifsdóttir: Ég tel að það sé ekki ástæða til að selja REI frá orkuveitunni á þessum tímapunkti.“

 

Í hádegi laugardags 19. apríl birti hljóðvarp ríkisins frétt um málið, þar sem sagði meðal annars:

„REI málið virðist enn óútkljáð meðal sjálfstæðismanna og flokkurinn verður að hreinsa andrúmsloftið til að virka trúverðugur í Reykjavík, segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri.

Birgir Guðmundsson: Ég held að það megi orða það þannig að það sé, að REI málið hafi bara, það sé að koma í ljós að REI-málið hafi aldrei verið klárað í síðustu umferð að, og sérstaklega ekki hjá núverandi meirihluta og innan borgarstjórnar Sjálfstæðisflokksins, það hafa ekki endanlega verið rætt til hlítar. Og það kemur fram í því að núna, að þá koma mjög misvísandi skilaboð, í fyrsta lagi frá, sko innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sjálfs og svo er náttúrulega ekki síður milli frjálslyndra eða Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra og svo sjálfstæðismannanna.

Segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur. Hann segir erfitt að meta hvaða áhrif málið hefur á meirihlutasamstarfið.

Birgir Guðmundsson: En svona pólitískt held ég að það sé nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega að taka málið svona dálítið fastari tökum.“

Ég gerði athugasemd við þessi orð Birgis í dagbókarfærslu á vefsíðu minni hinn 19. apríl og taldi hann ekki gefa rétta mynd ag málinu með því að vísa því aðeins til úrlausnar hjá sjálfstæðismönnum. Fleiri borgarfulltrúar þyrftu að koma til sögunnar. Þá er jafnframt ljóst, að Birgir tekur ekkert mið af því, sem gerðist á stjórnarfundi OR 18.apríl, þar sem meirihlutinn sameinast um, að gera verðmat á REI með það fyrir augum að selja megi einstök verkefni félagsins en nýta sérfræðiþekkingu innan þess til samvinnu við aðra. Í þessu felst greinileg málamiðlun milli þess að eiga REI óbreytt og selja það í núverandi mynd – málamiðlunin snýst um það, sé rétt skilið,að selja einstök áhættuverkefni.

Þrátt fyrir stjórnarfund OR 18. apríl og boðaða kynningu á þeim fundi, hefur hvergi birst, hvert var umboð Guðmundar Þóroddssonar á pallinum með Clinton og Ólafi Ragnari í New York, þegar heitið var milljörðunum til Djíbúti.

Hvað sem öðru líður ber að leggja öll spil á borðið, sem tengjast þessu verkefni ú Djíbútí. Með öllu er óvenjulegt, að ekki sé skýrt frá inntaki allra mála, þar sem forseti Íslands kemur opinberlega við sögu. Raunar á hann ekki að koma við sögu neins staðar á slíkum vettvangi nema með samþykki viðkomandi ráðherra.

Ég feitletra hér að ofan setningu úr frétt frá 18. apríl, þar sem sagt er frá samþykkt meirihluta stjórnarmanna í OR – það er að REI einbeiti sér að ráðgjöf og þróunarverkefnum. Hér er vísað til miðlunar þekkingar, sem er fyrir hendi í landinu hjá miklu fleiri aðilum en REI. Nýlega var sagt frá samruna stórra verkfræðiskrifstofa með það fyrir augum að treysta stöðu þeirra til að vinna stórverkefni innan lands og utan.

Hvers vegna þarf opinbert fyrirtæki, OR eða REI, að láta að sér kveða á hinum erlenda markaði? Af hverju er ekki unnt að leggja þeim einkaaðilum lið heimafyrir, sem búa yfir þessari þekkingu og styðja þá til sóknar erlendis? Sé það best gert með ferðum forseta, ráðherra eða stjórnarformanns OR til annarra landa, skal ekki gert lítið úr því – en séu hinir opinberu aðilar að skuldbinda opinber fyrirtæki til fjárútláta með viðveru sinni eða undirskrift á að skýra frá því öllu fyrirfram og í hvers umboði skuldbindingin er gefin. Þessir stjórnarhættir eru hvorki í heiðri hafðir innan OR né REI. Er sorglegt, að sjálfstæðismenn skuli ástunda þar sömu leyndarhyggju og innleidd var með stjórnarháttum Alfreðs Þorsteinssonar.

Þegar litið er til málefna OR/REI ætti öll borgarstjórn Reykjavíkur að læra af sögunni. Hún sýnir, hve vitlaust er að þrjóskast við og böðlast áfram í krafti opinbers fjármagns, þrátt fyrir að hættuljós kvikni. Sá tími á að vera liðinn í borgarstjórn, að þessum vandræðamálum OR sé sópað undir teppið. Hvað með umframkostnaðinn við byggingu OR-hússins? Hvað með linu.net, sem nú heitir gagnaveita, og ekki var seld, á meðan sú tækni þótti einhvers virði? Liklega hefur enginn áhuga á að kaupa gagnaveituna núna, tæknin hefur gert hana úrelta. Hvað með risarækjuna? Eða fyrirtækið, sem átti að framleiða hör? Hvað með fjárfestingar í Hitaveitu Suðurnesja?

Hvernig væri, að tekin yrði sú ákvörðun í eitt skipti fyrir öll, að Orkuveita Reykjavíkur einbeitti sér að því að sinna þjónustu við viðskiptavini sína? Beri sjálfstæðismenn í borgarstjórn gæfu til að sameina borgarstjórn um slíka ákvörðun eiga þeir heiður skilinn og þakklæti borgarbúa.