12.4.2008 22:08

Laugardagur, 12. 04. 08.

Fyrir þá, sem sættu ámæli, þegar þeir hallmæltu viðskiptum við Sovétríkin vegna stjórnarhátta þar, mannréttindabrota og heimsyfirráðastefnu, er sérkennilegt að sjá sama eða svipað fólk og þá hélt fram málstað Sovétríkjanna, hrópa hæst um, að í því felist samþykki við mannréttindabrotum að fara á Ólympíuleika í Kína.

Baldur Þórhallsson, prófessor, staddur er í Kína, segir, að stjórnmálamenn eigi að fara á Ólympíuleikana í Peking, annars sárni heimamönnum. Sá munur er á Ólympiuleikum undir forræði einræðisríkja og lýðræðisríkja, að hin fyrrnefndu líta á leikana öðrum þræði sem viðurkenningu á stjórnarháttum sínum, en í hin síðarnefndu láta sér slíkt í léttu rúmi liggja. Einmitt þess vegna er litið öðrum augum á ferð stjórnmálamanna á leikana í einræðisríki - hún er túlkuð sem póltísk viðurkenning ekki síður en stuðningur við íþróttamenn. Þetta verða stjórnmálamenn að hafa hugfast.

Ég fór tvisvar sem menntamálaráðherra á Ólympíuleika: í Atlanta 1996 og Sydney 2000, eins og sjá má hér á síðunum. Í hvorugt skipti datt nokkrum í hug að leggja pólitíska merkingu í ferðina, enda um lýðræðisríki að ræða. Nú er þátttaka stjórnmálamanna hins vegar litin pólitískum augum vegna stjórnarhátta í Kína, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir verða þess vegna að verja hana með pólitískum rökum.