20.4.2008 17:41

Sunnudagur, 20. 04. 08.

Framsóknarmenn efndu fimmtudaginn 17. apríl til fundar í Reykjanesbæ um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Sagt er frá fundinumn í Fréttablaðinu. Fyrirsögnin er höfð eftir Guðna Ágústssyni, sjálfum formanni Framsóknarflokksins, og er hún svona: Segir deiluna persónulega.

Í fréttinni er hvergi að finna rök fyrir þessari fullyrðingu, enda er hún úr lausu lofti gripinn. Í megnitexta fréttarinnar er sagt frá ræðu Guðna á fundinum og þessum orðum hans: „Það botnar enginn í því um hvað deilan snýst.“ Af þessum orðum má ráða, að Guðni hafi ekki orðið neins vísari af þessum fundi sínum, enda var ekki efnt til hans til að leysa vanda embættisins heldur til að magna ómálefnalegar árásir á mig vegna einhvers, sem framsóknarmenn skilja ekki.

Engan þarf að undra, að illa sé fyrir stjórnmálaflokki komið, sem grípur mál eins og þetta og efnir til fundar um það, án þess að sjálfur formaðurinn skilji um hvað málið snýst. Ef Guðni gæfi sér tíma til að kynna sér vanda lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, kæmist hann örugglega að sömu niðurstöðu og ég, að best fari á því, að hver verkþáttur embættisins sé á forræði þess ráðuneytis, sem á honum ber ábyrgð. Um þetta snýst málið en ekki persónur.

Setti í dag pistil á síðuna um ógöngur Orkuveitu Reykjavíkur.

Furðuleg frétt var sögð á Stöð 2 í kvöld um varalið lögreglu, án þess að nokkurrar heimildar væri getið. Þetta mál hefur verið á döfinni og hið nýjasta í því er, að úttektarnefnd um nýskipan lögreglu leggur til, að tekið verði á spurningunni um varalið við heildarendurskoðun lögreglulaga. Ég hef tekið undir tillöguna um endurskoðun lögreglulaganna.

Tríó Reykjavíkur minntist 20 ára afmælis síns með fjölsóttum tónleikum í Hafnarborg og vorum við þar klukkan 20.00