7.4.2008 21:47

Mánudagur, 07. 04. 08.

Í Noregi skammast vinstrisinnar yfir niðurstöðu NATO-fundarins í Búkarest. Á alþingi hrópa þeir hneykslunarorð, vegna þess að þeim líkar ekki flugvél ráðherranna. Hvort ætli skipti meira máli, þegar frá líður?

Farartæki ráðherra hafa löngum verið vinsælt gagnrýnisefni. Nú er hneykslast á notkun flugvéla í stað bíla áður.

Ólympíueldurinn var slökktur á götum Parísar í dag vegna mótmæla. Borgarstjórinn sýndi honum ekki virðingu við ráðhúsið. Kínversk yfirvöld halda ekki loga í kyndlinum með hópi harðskeyttra öryggisvarða. Viðbúnaður Parísarlögreglunnar var jafnmikill og við heimsókn George W. Bush, Bandaríkjaforseta.

Kínversk yfirvöld hafa tapað andlitinu vegna vandræðanna í kringum kyndilinn. Hann er tákn sigurs og gleði en sýnir nú niðurlægingu þeirra, sem ekki unna öðrum frelsis. Hringjum Ólympíufánans hefur verið breytt í handjárn. Spurningar vakna um styrk Ólympíuhugsjónarinnar andspænis þessari áraun.