Þriðjudagur 24. 05. 05.
Var í hádeginu í Valhöll til að taka við farandbikar frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Kynnti SUS málið meðal annars á þennan veg:
„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er sigurvegari Frelsisdeildar SUS veturinn 2004-2005 og hlaut hann að launum veglegan farandbikar í hádegisverði sem Samband ungra sjálfstæðismanna efndi til í Valhöll í dag. Mikil spenna var á lokakafla þingsins og skaust Björn í toppsætið í lokaumferð Frelsisdeildarinnar, en Pétur H. Blöndal hafði lengst af setið á toppnum. Pétur lenti í öðru sæti, einungis tveimur stigum á eftir Birni.
Björn er sá þingmaður sem tókst að gera flest jákvæð frumvörp að lögum, en Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson lögðu fram flest góð frumvörp, eða átta hvor. Ekkert þeirra varð að lögum. “