3.5.2005

Vatnsmýrin - Háskólinn í Reykjavík.

Punktar úr ræðum í borgarstjórn 3. maí 2005.

 

Ég er þeirrar skoðunar, að ræða Dags B. Eggertssonar, formanns skipulagsráðs, hafi hér við þessar umræður borið þess skýr merki, að R-listinn hefur enga skýr sýn á það, hvaða stefna eigi að ráða við skipulag Vatnsmýrarinnar. Ég tek undir þá gagnrýni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarfulltrúa, að í máli formanns skipulagsráðs hafi ekkert bitastætt verið að finna og tal hans um samráð hafi í verið marklaust í ljósi þeirra vinnubragða, sem R-listinn hefur tileinkað sér.

 

Þótt samráð við hagsmunaaðila í skipulagi sé ágætt, svo langt sem það nær, er ekki nóg að fara um það fögrum orðum. Það verður að leggja rækt við það.  Eftir ræðu formanns skipulagsráðs sýnist mér þessi mál í Reykjavík því miður vera að þróast út í eina allsherjar ferð út í bláinn.

 

Skortur á öguðum vinnubrögðum í skipulagsmálum er hrópandi, þegar litið er til ráðstafanir á landi í þágu Háskólans í Reykjavík. Við töku þeirra ákvarðana átti auðvitað að bera þá kosti faglega saman sem helst koma til greina viðvíkjandi staðsetningu Háskólans í Reykjavík (m.a. Keldnaholt og vestan s/n flugbrautar) - og meta þá kosti, bæði hvað varðar áhrif á umhverfi, umferð, fyrirtæki, lagnir o. s. frv. - áður en lóðinni var ráðstafað. Þennan samanburð átti líka að sýna þannig að allir gætu sannfærst um, að hér væri faglega og vel að verki staðið.

 

Hugmynd að alþjóðlegri samkeppni um skipulag þessa svæðis, án undangenginnar stefnumótunar borgarstjórnar Reykjavíkur er einfaldlega leið til að skjóta sér undan ábyrgð.

 

Skipstjórnarmenn þurfa að ákveða hvert á að sigla og sé það ekki gert á einhverjum þekkingar- og staðreyndagrundvelli er voðinn vís. Sama gildir um hlutverk sveitarstjórna í skipulagsmálum. Þær hafa það  hlutverk  að móta stefnu. Um stefnu halda menn ekki samkeppni.

 

Samkeppni án slíkrar stefnumótunarvinnu má líka líkja við það að setja endurskoðun á stjórnarskrá Íslands í alþjóðlega samkeppni. Auðvitað fengjum við margar áhugaverðar tillögur til að verðlauna. Við kæmumst hins vegar ekki hjá því að líta í eigin barm, því að þetta er þó mál, sem sjálfstæðar þjóðir þurfa að ráða fram úr sjálfar.

 

Hvers vegna alþjóðleg samkeppni um Vatnsmýrina?  Spyrja má, hvort vantrúin á okkur sjálf til að ráða fram úr okkar eigin skipulagsmálum sé orðin svona alger? Okkur ætti ekki að vera nein ofraun að skipuleggja samfélag okkar sjálf, að minnsta kosti í meginatriðum. Við höfum ekki gleymt alþjóðlegri samkeppni um skipulag Austurbakka (tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel) þar sem skipulagsmálin eru ennþá óleyst, þótt áfram sé haldið með undirbúning bygginga.

 

Framtíðar vegatengingar við flugvallarsvæðið eru enn óleyst mál og það er ekki ábyrgt að taka  ákvarðanir um nýjan háskóla við Nauthólsvík, fyrr en að minnsta kosti er sýnt, hvernig hægt sé að leysa þau forsvaranlega.

 

Í borgarstjórn hefur aðeins almennum orðum verið rætt um jarðgöng undir Öskjuhlíð að Hlíðarfæti. Ekkert hefur verið rætt um málið af alvöru eða í smáatriðum. Við vitum, hvað vafist hefur fyrir R-listanum að taka af skarið um mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eða legu Sundabrautar.  Hvaða hugmyndir hefur R-listinn til dæmis um umferðaslaufur, sem og tengingar sem þyrftu að vera við gangamunnana? Má ekki jafnframt skoða tengingu yfir (eða undir) Skerjafjörð í þessu sambandi?  - Þannig akbraut gæti einnig tengt miðbæi Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og orðið lyftistöng fyrir vesturhluta höfuðborgarsvæðisins.

 

Áður en farið er af stað með samkeppni er nauðsynlegt að borgaryfirvöld leggi meira í heimavinnu og eigin stefnumótun. Það er alltaf að sannast betur, hvílík firra það var að efna til atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins á þeim grunni, sem gert var á sínum tíma. Markleysan með atkvæðagreiðslunni var algjör, til hennar var stofnað með ærnum kostnaði til þess eins að vinna tíma eða til að búa til leikfléttu. Nú gefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem bar höfuðábyrgð á frumhlaupinu, til kynna, að það sé kannski einfaldast að kjósa bara aftur, ef nýjar tillögur komi fram.

 

Ég útiloka alls ekki, að það kunni að vera skynsamlegt að ganga til atkvæðagreiðslu að nýju um Vatnsmýrina en þá verður að liggja fyrir stefna eða skýrir marktækir kostir, sem síðan mætti nýta við skipulagsstarfið. Eins og áður sagði kemur skipulagssamkeppni ekki stað stefnu og skipulagssamkeppni án stefnu af hálfu borgarstjórnar er markleysa.

 

Borgaryfirvöld verða að að láta vinna tölulegt líkan og gera fræðilegan samanburð á þjóðhagslegri hagkvæmni þeirra kosta, sem nú eru helst taldir koma til greina um framtíðarþróun Vatnsmýrarinnar. Þeir eru ekki svo margir. Við slíkan samanburð þarf meðal annars að taka með alla kostnaðar- og tekjuþætti.  Það mætti efna til útboðs á slíkri hagkvæmnikönnun og leyfa t.d.  háskólum landsins og ráðgjafafyrirtækjum að bjóða í þetta verkefni.  Síðan mætti gjarnan semja við tvo lægstbjóðendur á verði þess næstlægsta og fá tvær rannsóknir til öryggis.  Á slíkum grundvelli yrði síðan hægt að taka upplýsta, stefnumarkandi ákvörðun, sem á að réttu lagi að liggja fyrir, áður en samkeppni um útfærslu, innan þessarar stefnumótunar, fer fram.

 

Á því kjörtímabili, sem nú er að líða, höfum við séð hvert dæmið eftir annað um, að skortur R-listans á þaulhugsaðri stefnu við töku ákvörðunar í skipulagsmálum veldur því, að henni er ekki hrundið í framkvæmd.

 

Ég nefni þrjú dæmi máli mínu til stuðnings.

 

Í fyrsta lagi ákvörðunina um bílastæði undir Tjörninni, sem tekin var sumarið 2002, og átti að koma til framkvæmda þá um haustið. Ekkert bólar á þeim framkvæmdum enn þann dag í dag.

 

Í öðru lagi ákvörðunina um niðurrif Austurbæjarbíós. R-listinn beit í skjaldarrendurnar og sagði hana óhagganlega, einn af varafulltrúum listans sagði af sér úr borgarstjórn, af því að hún fékk ekki leyfi til að andmæla ákvörðuninni á fundi borgarstjórnar. Ekkert varð úr niðurrifi hússins.

 

Í þriðja lagi svokallaða sátt um endurreisn Laugavegarins. Þegar á reyndi var alls ekki um neina sátt að ræða og enn ríkir óvissa um framtíð málsins.

 

Með þessar staðreyndir í huga og með vísan til þess, að í nágrenni Nauthólsvíkur hefur ekki farið fram neitt umhverfismat vegna mörg þúsund manna háskóla á svæðinu, hef ég sagt óskiljanlegt, að Háskólinn í Reykjavík, sem segist þurfa nýtt athafnasvæði með hraði, skuli hafa ákveðið að taka boði um lóð við Nauthólsvíkina.

 

Innan háskóla er að sjálfsögðu þekking á því, að ekki er unnt að hrapa að ákvörðunum, án þess að allir þættir máls hafi verið kannaðir til hlítar. Stuðst sé við þá bestu vitneskju, sem er fyrir hendi.  Fyrir borgarstjórn Reykjavíkur hafa ekki verið lögð nein haldbær gögn, sem gera henni í raun og veru kleift að samþykkja hvað þá heldur að fagna því, að Háskólinn í Reykjavík skuli eiga framtíðarstað við Nauthólsvíkina.

 

Umhverfisráð Reykjavíkur kom saman í gær, en undir það heyra bæði samgöngumál og umhverfismál. Í ráðinu lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna fram tillögu, sem var samþykkt samhljóða. Hún var þannig:

 

„Umhverfisráð telur að rétt hefði verið að hafa samráð við ráðið þegar Háskólanum í Reykjavík var úthlutað lóð í Vatnsmýrinni. Lóðin er á svæði sem hefur að hluta verið skipulagt sem útivistar- og grænt svæði. Þar að auki er fyrirhugað byggingarland alveg ofan í vinsælum útivistarsvæðum - Öskjuhlíðinni, göngustíg með ströndinni og ylströndinni í Nauthólsvík - og því enn meiri ástæða fyrir Umhverfisráð að taka málið til umfjöllunar. Það sætir því furðu að það ráð sem helst á að sinna grænum svæðum og umhverfismálum í borginni skuli aldrei hafa tekið málið til umfjöllunar og einsetur ráðið sér að láta slíka handvömm ekki henda aftur. Ráðið fagnar því hins vegar að Háskólinn í Reykjavík hefur fengið lóð í Reykjavík.“

 

Þessi samhljóða samþykkt umhverfisráðs sýnir svart á hvítu, hvað felst í talinu um samráð hjá formanni skipulagsráðs. Það er ekki einu sinni haft samráð við nefndir borgarstjórnar hvað þá heldur aðra.

 

Ráðstöfun á lóð til Háskólans í Reykjavík er einfaldlega ekki komin á það stig, að borgarstjórn geti sem ábyrgt stjórnvald tekið ákvörðun um hana. Málið hefur ekki verið lagt fyrir á réttan hátt. Það hefur ekki verið leitað samstarfs við þá aðila innan borgarkerfisins, sem þurfa að koma að slíkum málum, svo að rétt sá að ákvörðunum staðið.

 

Í þessu efni lýsi ég ábyrgð á hendur Degi B. Eggertssyni, formanni skipulagsráðs, sem talar um þetta mál af gáleysi og með innan tómum fagurgala. Slíkt tal kann að hljóma vel í eyrum einhverra, en það leysir ekki viðfangsefnið og er frekar til fallið að drepa málinu á dreif en stuðla að lausn þess.

 

Ég vil að öllum lögbundum ráðum sé beitt til að stuðla að því, að ákvarðanir um framtíð og skipulag Vatnsmýrarinnar séu vel og vísindalega undirbúnar. Ég krefst þess í því sambandi, að tafarlaust verði hafist handa við umhverfismat vegna hugmynda um að Háskólinn í Reykjavík verði við Nauthólsvík. Ég krefst þess einnig að lagt verði fyrir borgarstjórn umferðatæknilegt mat á afleiðingum þess að Háskólinn í Reykjavík verði á þessum stað. Þá krefst ég þess, að fyrir borgarstjórn verði lögð tímasett verkáætlun um það, hvernig standa eigi að nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi og skipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið vegna þessara áforma.

 

Ég beini máli mínu til Katrínar Jakobsdóttur, formanns umhverfisráðs og varaformanns vinstri/grænna, þegar ég spyr, hvort hún ætli ekki að beita sér fyrir því, að framkvæmdir við milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar fari í umhverfismat.

 

Í kynningarriti Reykjavíkurborgar: Staðarval Háskólans í Reykjavík, samningsgrundvöllur, sem dagsett er í mars 2005 og ég fékk frá skjalasafni Reykjavíkurborgar segir meðal annars: „Öskjuhlíð og Nauthólsvík eru ótvíræð tákn um það besta sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða, einsök náttúrufegurð og aðstaða til útivistar í nánum tengslum við iðandi mannlíf borgarumhverfisins.“

 

Ég spyr: Hvernig ætlar formaður umhverfisráðs að verja það, að framkvæmdir á þessu svæði fari ekki í umhverfismat? Hvar á slíkt mat þá almennt að fara fram? Hvaða fordæmi er verið að gefa með því að setja framkvæmdir á þessu viðkvæma svæði ekki í mat?

 

Það er blekking, þegar formaður skipulagsráðs segir, að umhverfismat hafi farið fram vegna þessa svæðis við gerð aðalskipulags. Í aðalskipulagi er alls ekki gert ráð fyrir neinum mannvirkjum á þessum stað. Í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið er ekki heldur gert ráð fyrir neinum mannvirkjum á þessu svæði. Hvernig er þá unnt að halda því fram, að fyrir liggi umhverfismat vegna framkvæmda á þessum stað?

 

Mér kemur ekki á óvart, að formaður skipulagsráðs sprengi reykbombur í blekkingarskyni í umræðunum um þörfinni á umhverfismati. En ég hef borið meira traust til formanns umhverfisráðs - ætlar Katrín Jakobsdóttir að umgangast kröfuna um umhverfismat af þessari blekkingarfullu léttúð?

 

Dagur B. Eggertsson fullyrðir að mikil vinna og framlag margra sérfræðinga búi að baki því, að Háskólanum í Reykjavík var boðin þessi lóð. Hvar er unnt að nálgast niðurstöður þessara sérfræðinga? Ég bað um öll gögn málsins úr skjalasafni Reykjavíkurborgar og fékk tvær skýrslur, en þar af er önnur í raun áróðurs- eða kynningarbæklingur. Fyrir utan það voru mér sendar ályktanir Samtaka um betri byggð og nokkrar bókanir í borgarráði og borgarstjórn. Er farið með niðurstöður sérfræðinganna sem leyniskjöl? Ég krefst þess að fá aðgang að þeim.

 

Þetta ber allt að sama brunni. Málið er illa undirbúið, fjölmörgum spurningum er ósvarað. Síðan er hættan á því, að mörg þúsund manna vinnustaður við Nauthólsvíkina kalli á veg yfir Öskjuhlíð og fyrir neðan Fossvogskirkjugarð. Ég fagna því, að Katrín Jakobsdóttir tekur undir með mér varðandi hættuna á vegi yfir Öskjuhlíð, en sakna þess að hún nefnir ekki í sömu andrá að verja eigi Fossvoginn fyrir nýjum vegi.

 

Hér stendur Dagur B. Eggertsson og talar um það sem sjálfsagðan hlut, að Tilraunastöðinni á Keldum verði lokað og starfsemin flutt í Vatnsmýrina. Öðru vísi mér áður brá. Fyrir kosningarnar 2002 var hann fremstur í flokki þeirra, sem fjargviðruðust yfir því, að ég beitti mér fyrir því sem menntamálaráðherra, að unnið yrði að þessum flutningi. Sætti ég árásum fyrir þessa stefnu og var sakaður um að vilja ganga að íslenskum rannsóknum á heimsmælikvarða dauðum.

 

Ég er enn sama sinnis og áður um flutninginn frá Keldum og fagna sinnaskiptum Dags og annarra í því efni. Ég er einnig sama sinnis og áður varðandi nauðsyn þess að Háskólinn í Reykjavík vaxi og dafni, fái að blómgast sem öflug menntastofnun. Ég óttast hins vegar að það spilli fyrir skólanum að dragast inn í hið ömurlega ferli, sem því miður er einkenni á gerðum R-listans við töku erfiðra ákvarðana í skipulagsmálum.

 

Ég skil ekki, að þeir, sem fylgst hafa með framvindu skipulagsmála í Reykjavík undir stjórn R-listans skuli kjósa að fara til samstarfs við hann um framtíð sína á jafnveikum grunni og hér um ræðir. Hvernig sem á málið er litið er illa að því staðið af hálfu forystumanna R-listans í skipulagsmálum.