1.5.2005 14:27

Sunnudagur, 01. 05. 05.

Var klukkan tólf í Silfri Egils á Stöð 2.

Í fyrsta hluta ræddum við Steingrímur J. Sigfússon, Margrét Frímannsdóttir og Hjálmar Árnason um þinghaldið í vetur. Ég sagði hæst hafa borið tilraunir stjórnarandstöðu til að veikja trúverðugleika nýs forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og hefði stjórnarandstaðan ekki haft erindi sem erfiði.

Í öðrum hlutanum ræddi ég við Dag B. Eggertsson um skipulag í Vatnsmýrinni og áréttaði ég þar þá skoðun mína, að mér væri óskiljanlegt, hvers vegna Háskólinn í Reykjavík vildi dragast inn í deilur um þetta svæði og sagði, að auðvitað yrði að fara fram umhverfismat um framkvæmdina. Dagur var með barnaleg skot á mig í máli sínu og tel ég þau stafa af reynsluleysi hans í umræðum af þessum toga auk þess var sérkennilegt að hlusta á hann víkja sér undan spurningum Egils um það, hvað eiginlega hefði verið ákveðið varðandi Vantsmýrina.

Í þriðja hlutanum ræddi ég við þá Össur Skarphéðinsson og Ásgeir Friðgeirsson um væntanlegar þingkosningar í Bretlandi. Sagðist ég sama sinnis og The Economist, að Tony Blair ætti stuðning skilinn fyrir innrásina í Írak og álagningu skólagjalda í breskum háskólum.

Klukkan var um 13.00 þegar ég yfirgaf stólinn við hlið Egils Helgasonar.