30.11.2009

Mánudagur, 30. 11. 09.

Augljóst er, að ríkisstjórn eða forystumenn hennar hafa ekki burði til að knýja fram afgreiðslu á Icesave-málinu á alþingi. Vandræðin eru vegna hins ófagra málstaðar og óboðlegu málsmeðferðar. Hvað gerist þá? Jú, Steingrímur J. ræðst á þingmenn og sakar þá um að vera ekki starfi sínu vaxnir. Hann neitar jafnframt að láta þeim í té upplýsingar, þær séu þess eðlis, að verði að fara leynt.

Saga alþingis geymir dæmi þess, að efnt hafi verið til fundar með þingheimi fyrir luktum dyrum. Er til of mikils mælst, að það sé gert, þegar jafnmikið er í húfi og nú? Að sjálfsögðu eiga allir þingmenn rétt á að vita, hvaða leyndarmál eru svo merkileg í tengslum við Icesave. Forseta alþingis ber hér að gæta hags þingmanna og boða lokaðan fund.

Þegar ég heyrði Steingrím J. skjóta sér á bakvið leyndarmál í ræðustól alþingis, hvarflaði hugurinn til þess, hvernig þeir Steingrímur J. og Ögmundur hefðu látið í stjórnarandstöðu, ef þannig hefði verið talað til þeirra. Svo að ekki sé minnst á, ef einhver ráðherra hefði sakað þingmenn um að vera ekki starfi sínu vaxnir.

Spyrja má: Hefur Steingrímur J. ofmetnast? Sé svo, yfir hverju? Rúmlega 100 manns misstu vinnuna í dag, þar á meðal vegna kvíða yfir áhrifum skattahækkana Steingríms J.