17.11.2009

Þriðjudagur, 17. 11. 09.

Þessi síða mín nálgast nú 15. aldursárið og hér hefur aldrei verið neitt athugsemdakerfi, eins og tíðkast hjá sumum og kallar greinilega oft á mikinn lestur. Síðan hefur hins vegar verið farvegur fyrir þúsundir fyrirspurna til mín í áranna rás. Höfuðástæða þess, að ég hef þennan hátt á, er, að ég kæri mig ekki um að bera ritstjórnarlega ábyrgð á óhróðri, rangfærslum eða skömmum um menn og málefni, sem birtast gjarnan nafnlausar í athugasemdadálkum vefsíða.

Ég skil vel, að athugasemdir séu vel þegnar á fjölmiðlasíðum, þar sem kallað er eftir viðbrögðum við fréttum, sem eiga að vera óhlutdrægar. Þar er ekki heldur neinn vafi um ábyrgð og ritstjórn. Hitt er einnig augljóst, að sumir halda úti síðum til þess eins að espa einhvern hóp aðdáenda eða andstæðinga og gefa því fólki tækifæri til að láta ljós sitt skína. Séu athugasemdir við slíkar síður skoðaðar, er augljóst, að þetta er yfirleitt sama fólkið, sem er að karpa innbyrðis, með sama málefnið eða sömu einstaklinga á heilanum.

Ég undrast, þegar þeir, sem halda úti síðum til að miðla fróðleik um eitthvert efni eða til að halda saman efni fyrir sjálfa sig, eru að hæla sér af því að hafa lítt ígrundaðan athugasemdahala á eftir því, sem þeir setja á síður sínar.  Nýtt dæmi um þetta sá ég í dag á síðu Evrópusamtakanna, einskonar heimatrúboðs fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Þar er verið að agnúast út í Ásmund Einar Daðason, þingmann vinstri-grænna og nýkjörinn formann Heimssýnar, fyrir að lýsa andstöðu við ESB-aðild og fyrir að svara þeim samfylkingarmönnum, sem voru að skammast yfir því, að Ásmundur Einar hefði tekið kjöri sem formaður Heimssýnar. Evrópusamtökin telja það málefnalegt framlag til stuðnings málstað sínum, að þar geti menn gert athugasemdir á heimasíðu en ekki hjá Heimssýn. Ég sé ekki, að það veiki málstað Ásmundar Einars eða Heimssýnar, að ákafir ESB-aðildarsinnar eða félagar í Evrópusamtökunum geti ekki hnýtt í stefnu Heimssýnar á síðu hennar.  Spyrja má, hvernig í ósköpunum þetta snerti spurninguna um aðild Íslands að ESB eða formennsku Ásmundar Einars í Heimssýn. Sé þetta til marks um eitthvað, er það málefnafátækt Evrópusamtakanna.