21.11.2009

Laugardagur, 21. 11. 09.

Einkennilegt er, að ekki skuli hafa verið meira gert úr því, sem fram kom í pistli Gísla Kristjánssonar, fréttaritara RÚV í Noregi, hinn 6. nóvember sl. Þar sagði Gísli frá því, að Norðmaðurinn, sem hér var seðlabankastjóri, hefði átt milligöngu fyrir landa sinn, sem vildi gerast hluthafi í MP banka. Gísli rakti einnig tengsl stjórnmálamanna og fjármálamanna í Noregi. Varla hefðu þau verið talin til fyrirmyndar hér.

Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Lapplandi, ræddi Evrópuvæðingu utanríkis- varnar og öryggismála á rás1í dag. Hún taldi aðild Íslands að Schengen snúast um þátttöku í evrópsku öryggismálasamstarfi og gæfi  góða raun. Ég er sammála þessu. Umræður um, að Schengen-samstarfið dragi úr öryggi hér á landi eru algjörlega á röngu róli.