22.11.2009

Sunnudagur, 22. 11. 09.

Óratórían Cecilía eftir Áskel Másson við texta Thors Vilhjálmssonar var frumflutt í þéttsetinni Hallgrímskirkju klukkan 16.00 í dag. Fjórir einsöngvarar, Mótettukór Hallgrímskirkju, tvö orgel og hljómsveit fluttu undir stjórn Harðar Áskelssonar. Einnig var leikið á steinhörpu og vatnstrommur eftir Pál á Húsafelli. Flutningnum var mjög vel tekið enda verkið magnað að allri gerð. Mér kom trúarhitinn í texta Thors Vilhjálmssonar þægilega á óvart.

Á dögunum fór ég í Kassa Þjóðleikhússins og sá Pálínu Jónsdóttur flytja Völvu verk byggt á Völuspá, nýstárleg og spennandi sýning. Saga Cecilíu, dýrlings tónlistar og fagurra lista, lifir með okkur kristnum mönnum um heim allan og er uppspretta nýrrar sköpunar. Hið sama má segja um hinn forna menningararf okkar Íslendinga, hann er mörgum hvatning til listrænna átaka.

Norræn goðafræði er rannsökuð víða um heim og áhugi á henni vex jafnt og þétt. Markmið Pálínu er að fara með sýningu sína byggða á Völuspá út fyrir landsteinana. Hún verður örugglega til þess, að fleiri en ella taka til við að kynna sér þetta meistaraverk.