11.11.2009

Miðvikudagur, 11. 11. 09.

Gestur minn á ÍNN í kvöld klukkan 21.30 verður Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Við ræðum breytingar á embættinu á Suðurnesjum, sem komu til framkvæmda 1. janúar sl. Hún greinir einnig frá baráttunni við skipulagða, alþjóðlega glæpahring, gildi Schengen-samstarfsins og greiningarstarfs á vegum lögreglunnar.

Augljóst er, að Samfylkingin ætlar að bíta í skjaldarrendurnar á alþingi og verja skattahækkanir Jóhönnu og Steingríms J., þótt enginn viti enn, hvernig þær verða. Skattaborg ríkisstjórnarinnar er mun brýnna mál en skjaldborg heimilanna, ef ályktun er dregin af látunum á þingi til varnar skattahækkanaæðinu, sem boðað hefur verið.

Gamalreyndur kaupmaður sendi mér ábendingu um, að lækkun tolla í árslok 1961 hefði leitt til hærri tolltekna ríkissjóðs á árinu 1962. Þá var tollur lækkaður úr 135% í 80%, til dæmis á nælonsokkum. Við það jukust tolltekjur ríkissjóðs af nælonsokkum.

Hið sama á við um skatta. Hækkun þeirra leiðir ekki sjálfkrafa til hærri tekna ríkissjóðs. Hækkunin eykur hins vegar íhlutun ríkisvaldsins í einkamálefni fólks og það er sjálfstætt markmið sósíalista. Þeir telja sig vita betur, hvernig fara á með fé, en hinir, sem afla fjárins. Að þessu leyti er vinstrisinnuð skattastefna hluti af ofríkisstefnu, sem miðar að því að þrengja svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra.