13.11.2009

Föstudagur, 13. 11. 09.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti alþingis, ritar skelegga og vel rökstudda grein á pressan.is í dag, þar sem hann spyr, hvort Þorsteinn Pálsson sé genginn í Samfylkinguna, úr því að hann hafi tekið skipun Össurar um að setjast í ESB-aðildarviðræðunefndina.  

Þorsteinn er ekki genginn í Samfylkinguna, þótt ýmsir ESB-skoðanabræður hans innan Sjálfstæðisflokksins hafi greitt Samfylkingunni atkvæði í síðustu kosningum. Þorsteinn er hins vegar genginn í Evrópusambandið og vill, að allir Íslendingar geri hið sama. Þess vegna tekur hann sæti í nefndinni og þess vegna var hann valinn til setu í henni.

Á bloggsíðum hafa ýmsir samferðarmenn Þorsteins inn í Evrópusambandið hneykslast á grein Sturlu með tilfinningarökum þeirra, sem skilja ekki, hvers vegna aðrir sjá ekki fyrirheitna landið og dásemdir þess.

Að Össur skuli hafa leitað til Þorsteins endurspeglar þann þátt ESB-aðildarbrölts Össurar, sem miðar að því að draga úr samheldni innan Sjálfstæðisflokksins. Ástæðulaust er að þegja um þennan þátt málsins, því að hann er líklega helsta beita Össurar til að festa vinstri-græna á ESB-öngulinn.