26.11.2009

Fimmtudagur, 26. 11. 09.

Óðagot Össurar Skarphéðinssonar í ESB-málum skilar ekki þeim árangri út á við, sem að var stefnt. Inn á við hefur buslugangurinn grafið undan trausti á stjórn hans á viðræðunum.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur lögðu ríkisstjórnina að veði til að knýja fram samþykkt á ESB-aðildarviðræðna-ályktun á alþingi 16. júlí, svo að hún kæmist fyrir ESB-utanríkisráðherrafund 27. júlí til undirbúnings afgreiðslu á fundi leiðtogaráðs ESB-ríkjanna í desember, síðasta leiðtogaráðsfundi undir stjórn Svía. Síðan skyldu viðræður hefjast í upphafi árs 2010.

Nú er ljóst, að ESB-leiðtogaráðið tekur í fyrsta lagi afstöðu til óska íslensku ríkisstjórnarinnar í mars. Þá verður Olli Rehn hættur sem stækkunarstjóri og Spánverjar teknir við pólitískri forystu innan ESB af Svíum. Ef til vill kýs nýr stækkunarstjóri lengri tíma en fram í mars til að skoða mál Íslands. Spænski forsætisráðherrann lagði enga áherslu á stækkun ESB í samtali við Der Spiegel á dögunum um áherslumál undir forystu Spánverja.

Þá er renna betur upp fyrir þeim fulltrúum ESB, sem fylgjast náið með gangi mála hér á landi, að ríkisstjórnina skortir nauðsynlegan stuðning heima fyrir við ESB-stefnu sína. Tvö nýleg atvik í sögu ESB hafa verið mælistika í þessu efni. Í fyrsta lagi samþykkt Lissabon-sáttmálans, sem vakti mikinn og almennan fögnuð í umsóknarlöndunum Króatíu og Svartfjallalandi og vonbiðlalandi eins og Albaníu. Í öðru lagi valið á fyrsta forseta ESB og fyrsta utanríkisráðherra. Hvorugt atvikið vakti neina sambærilega athygli hér og annars staðar.

Össur Skarphéðinsson var á Spáni í síðustu viku og sagðist hafa kynnt stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum með hliðsjón af ESB-aðild og leitað álits spænskra viðmælenda sinna af henni. Lét hann vel af viðtökunum. Það er til marks um fátæklega fréttamennsku vegna ESB-mála, að enginn spurði Össur, hvaða stefnu hann hefði kynnt.

Rétt norðan við landamæri Spánar við Biskajaflóa er bærinn Biarritz í Frakklandi: Þar var Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á alþjóðlegri ráðstefnu um strandveiðar 25. nóvember og flutti ræðu. Niðurlag hennar hefur áreiðanlega komið þeim Spánverjum á óvart, sem heyrðu Össur dásama ESB nokkrum dögum áður. Jón sagði ríkisstjórnina klofna í ESB-málinu. Bændur, útgerðarmenn og sjómenn væru á móti aðild eins og hann sjálfur og flokkur hans. Íslendingar gætu bjargað sér betur utan ESB en innan.

Þegar Spánverjar leggja saman einn og einn íslenskan ráðherra í ESB-málum fá þeir núll. Hvers vegna skyldu þeir taka aðildarmál Íslands á dagskrá í ESB-forsetatíð sinni og verja til þess miklum fjármunum?