Þriðjudagur, 03. 11. 09.
Í fréttum er skýrt frá því, að Sigríður Ingvarsdóttir hafi sagt sig sem héraðsdómari frá máli, sem Guðmundur Kristjánsson hrl. hefur höfðað gegn ríkissjóði og Árna M. Mathiesen, settum dómsmálaráðherra, vegna þess að Árni skipaði hann ekki héraðsdómara. Þegar ég ætlaði að setja Guðmund sem héraðsdómara, afþakkaði hann. Mér þykir líklegt, að enginn hafi oftar sótt um embætti á verksviði dómsmálaráðherra en Guðmundur.
Af húskarlahorni Fréttablaðsins má ráða, að þar séu menn á því máli, að samgönguráðherra Kristján Möller megi ekki ákveða styrk til karlakórs. Hvort þar ræður, að kórinn er í kjördæmi ráðherrans eða ráðherrann sé ekki hæfur til að meta gæði kórsöngs, segir ekki í blaðinu. Virðist það skoðun þeirra, sem um þetta skrifa, að besta trygging fyrir því, að „skúffufé“ ráðherra sé ráðstafað á réttan hátt, sé, að settar verði nýjar reglur um ráðstöfunina. Ég er ósammála því, að ráðherra sé ekki fær um að meta, hvort kór eða listamaður sé verðugur styrks.
Jóhanna Sigurðardóttir er hins vegar þeirrar skoðunar, að ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafi ekki dómgreind til að taka ákvörðun um mál af þessu tagi. Þeir þurfi annað hvort að fá fyrirmæli í nýjum reglum eða ráðstöfunarféð verði tekið af þeim. Spyrja má, hvort ekki sé nær að skipta um ráðherra, ef þeim er ekki treyst til að fara með ráðstöfunarféð.