12.11.2009

Fimmtudagur, 12. 11. 09.

Undarlegt er að sjá viðkvæmni stjórnarliða vegna gagnrýni sjálfstæðismanna á atferli stjórnarflokkanna í skattamálum. Bjarni Benediktsson kenndi það við brjálæði í umræðum á þingi. Varð það orð enn til að auka kveinstafi stjórnarsinna og endurspeglast þeir í forystugrein Fréttablaðsins í dag. Gaf hún mér tilefni til að rita pistil á vefsíðuna amx.is í því skyni að greina rökin í málflutningi stjórnarliða. Satt að segja sé ég ekkert annað hald í þeim en að sósíalistinn Steingrímur J. hafi viljað og vilji enn umturna skattkerfinu og auka álögur á borgarana og fyrirtæki þeirra. Hann notar bankahrunið sem skálkaskjól.