18.11.2009

Miðvikudagur, 18. 11. 09.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa kynnt skattahækkanir fyrir sína hönd. Nú er spurningin, hvort tillögurnar hafa hlotið náð fyrir augum þingflokka þeirra. Þau segja að svo sé. Þau töldu einnig, að Icesave-málið mundi renna ljúflega í gegnum þingið 5. júní sl. Afgreiðslu þess er ekki enn lokið.

Þau telja, að þessar hækkanir þeirra á sköttum auki tekjur ríkissjóðs um 50 milljarða króna. Frá því að Jóhanna og Steingrímur J. settust í ráðherrastólana 1. febrúar 2009, hafa útgjöld ríkissjóðs orðið 30 milljörðum króna meiri en áætlað var í ársbyrjun. Fráleitt er, að þeir, sem halda þannig á opinberum fjármálum, segi það alfarið öðrum að kenna, að hækka þurfi skatta.

Borin von er, að Jóhanna Sigurðardóttir skeri upp herör gegn aðhaldsleysi í opinberum rekstri. Í 10 mánaða stjórnartíð hennar hafa 42 menn verið ráðnir til starfa í stjórnarráðinu án auglýsingar. Árlegur útgjaldaauki vegna svo margra embættismanna er ekki undir 200 til 250 milljónum króna. Stofnað er til milljarða útgjalda vegna ESB-aðildarstefnu Samfylkingarinnar.