29.11.2009

Sunnudagur, 29. 11. 09.

Sé ekki samkomulag um störf alþingis, logar allt í deilum á þeim vettvangi, eins og annars staðar þar sem menn greinir á um úrlausn mála. Um þessar mundir er ekkert samkomulag um meðferð þingmála og endurspeglast það í þingsalnum. Ástandið batnar ekki, ef þingmenn fá ekki matarhlé og fundað er fram á laugardagskvöld. Illa ígrundaðar ákvarðanir af þessu tagi endurspegla sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur í höndum Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Guðbjartur Hannesson var forseti Alþingis á vorþingi 2009 og var oft óttalegt að fylgjast með tilburðum hans við að framfylgja kröfu Jóhönnu um að beita okkur stjórnarandstöðuþingmenn harðræði. Að lokum gafst Jóhanna upp við að knýja fram breytingu á stjórnarskránni. Vilji hún frið um afgreiðslu mála á þingi í desember, verður hún að semja við stjórnarandstöðuna. Málið er ekki flóknara.

Ég hafði orð á því við mann, sem kom að rekstri Loftleiða á sínum tíma, að Jóhanna kynni ekki að semja um lausn mála. Láttu mig þekkja það, ég kynntist því, þegar hún var í forystu fyrir flugfreyjur, svaraði hann. 

 Jóhanna hefur átt stórundarleg samskipti við forsætisráðherra Breta og Hollendinga, eftir að alþingi samþykkti Icesave-fyrirvaranna. Vanmáttur hennar til samninga birtist þar í því, að látið er undan kröfum Breta og Hollendinga.

Hver veit, hvaða mál Jóhanna ætlar að flytja á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn? Hvernig ætlar hún að gæta íslenskra hagsmuna á þeim vettvangi?