Þriðjudagur, 10. 11. 09.
Ég tek heilshugar undir með Ragnari Árnasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem sagði í Kastljósi kvöldsins, að vitlausasta skattaaðgerðin núna væri að leggja á þyngri tekjuskatta. Það myndi draga úr áhuga fólks á vinnu, þegar mest þyrfti á því að halda að virkja sem flesta til arðbærra starfa. Ragnar minntist ekki á „svörtu vinnuna“, sem er ein helsta leiðin á vinnumarkaði í Danmörku og Svíþjóð til að forðast hærri skattþrepin.
Ég sakna þess, að tekinn sé saman listi yfir allar kúnstirnar, sem ríksstjórn Jóhönnu kýs að leika í stað þess að einbeita sér að meginviðfangsefninu, stjórn ríkisfjármála með endurreisn hagkerfisins að leiðarljósi.
Ástæðulaust er að gleyma því, að vinstri-grænir fóru hamförum gegn skattalækkunum undanfarinna ára. Nú er Steingrímur J. að framkvæma skattahækkunarstefnuna, sem hann hefur boðað í mörg ár. Hún á í sjálfu sér ekkert skylt við hrunið, þótt Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, láti eins og svo sé - skattahækkanir hafa ávallt verið meðal helstu stefnumála vinstri-grænna. Samfylkingin dansar eftir skattapípu þeirra, en veit þó ekki hvernig hún á að fóta sig.
Öllum er ljóst, að hækki áfengi yfir ákveðin mörk, ýtir það undir áhuga á að brugga. Hið sama á við um hækkun skatta. Fari þeir yfir ákveðin mörk, eykst ákafinn við að losna undan þeim með öllum ráðum. Þess vegna jafngildir skattahækkun því ekki, að skatttekjur ríkis eða sveitarfélaga aukist.