Fimmtudagur, 19. 11. 09.
Styrmir Gunnarsson er tekinn til við að kynna nýja bók sína, Umsátrið. Þóra Arnórsdóttir ræddi við Styrmi í Kastljósi kvöldsins. Hún virtist helst vilja ræða starfshætti á ritstjórn Morgunblaðsins og hið víðtæka tengslanet Styrmis, á meðan hann sat þar á ritstjórastóli. Af þeim bókum, sem ég hef lesið um fall bankanna og hrunið, er Umsátrið skrifað af mestri yfirsýn og viðleitni til að grafast fyrir um, hvað raunverulega gerðist. Styrmir verðu gestur minn í þætti á ÍNN miðvikudaginn 25. nóvember.
Á bakvið luktar dyr yfir málsverði í Brussel ákváðu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna í kvöld, að Herman van Rompuy yrði fyrsti forseti Evrópusambandsins. Hann er Flæmingi og hefur verið forsætisráðherra Belgíu í nokkra mánuði. Van Rompuy sagði nýlega, að nauðsynlegt væri fyrir stjórnkerfi ESB að fá beint skattlagningarvald í aðildarríkjunum til að afla sér tekna. Honum er lýst sem klassískum evrópskum sambandsríkissinna, sem vilji veg Evrópufánans og ESB-þjóðsöngsins sem mestan.
Bresk barónessa, Catherine Ashton, var valin utanríkisráðherra ESB, Hún tekur við af Javier Solana, en hefur mun skýrara umboð en hann í krafti Lissabon-sáttmálans, sem tekur gildi 1. desember nk. Ætlunin er að stórefla utanríkisþjónustu ESB og verður hún hin fjölmennasta í heimi.
Ljóst er, að smáríki máttu sín lítils við þetta val á forystumönnum Evrópusambandsins. Þjóðverjar og Frakkar ráðu í raun forsetanum og létu Bretum eftir utanríkisráðherrann, úr því að þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy vildu ekki Tony Blair.
Að lægsti samnefnari milli stórvelda ráði ákvörðun af þessu tagi getur vissulega reynst vel. Aðferðin er hins vegar ekki til þess fallin að auka trú lýðræðissinna á nýju stjórnkerfi Evrópusambandsins eða stjórnendum þess.