23.11.2009

Mánudagur, 23. 11. 09.

Í hádegi í dag flutti ég erindi um Ísland milli Evrópu og Bandaríkjanna í Rotaryklúbbi Garðabæjar og svaraði spurningum fundarmanna. Ég velti fyrir mér, hvort skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að fela Evrópusambandinu að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Bandaríkjunum eða halda áfram að rækta þau tvíhliða tengsl sjálfir. Evrópusambandið er að koma á laggirnar stærstu utanríkisþjónustu í heimi, eins og ég ræði í pistli, sem ég setti hér á síðuna í dag.

Athygli beinist eðlilega mjög að því, hvort Kaupþing/Arionbanki ætli að endurræsa Baugsveldið með samningum við 1998/Haga eða hvað þessi fyrirtæki nú heita. Fyrir þeim fer Jóhannes í Bónus, en hann sagði fyrir rétti í Baugsmálinu, að hann væri bestur í kjötfarsi. Arionbanki tekur sér frest fram í janúar til að kanna áreiðanleika viðmælenda sinna. Líklega veitir ekki af tímanum til að átta sig á milljarða, tug milljarða eða hundruð milljarða skuldum þeirra í bankakerfinu. Hitt er einnig íhugunarefni,  að 1998/Hagar hafa mikið af haldbæru fé milli handanna eftir jólavertíðina. Fyrirtækið getur notað það til að borga Arion fyrstu greiðslur og haldið síðan áfram að velta skuldabagganum á undan sér eins og áður.

Bloggarar skrifa auðvitað um þetta, þeirra á meðal Ágúst Borgþór Sverrisson á pressan.is, sem segir:

„Jón Ásgeir er skuldakóngur íslenska efnahagshrunsins og einn af helstu orsakavöldum hruns Glitnis enda fékk hann að láni gífurlegar upphæðir úr bankanum til að fjármagna fjárfestingarævintýri sín erlendis.

Ljóst er að ríkisstjórnin sér í gegnum fingur sér með þennan gjörning Arion banka. Það gerir hana jafnspillta og síðustu ríkisstjórn sem komið var frá völdum með mótmælaaðgerðum.

Fyrst ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa í taumana er reiði almennings það eina sem getur stöðvað óhæfuna. Enn er tími þar til í janúar er Arion banki svarar formlega tilboði Baugsklíkunnar.“

Ágúst Borgþór skýrir stuðning ríkisstjórnarflokkanna við endurreisn Baugsveldisins með óvild þeirra Jóhönnu og Steingríms J. í garð Sjálfstæðisflokksins. Þarf frekari vitna við um gjaldþrot þessa fólks? Það skyldi þó ekki koma í hlut sjálfstæðismanna í setjast í skiptastjórn þrotabús þess fyrr en síðar?