Þriðjudagur, 24. 11. 09.
Morgunblaðið birti 23. nóvember forsíðufrétt um, að Daniel Gros, sérfræðingur í alþjóðafjármálum og málefnum Evrópusambandsins, teldi Íslendinga hafa lögfræðileg rök til að krefjast jafnræðis vegna vaxta á lánum til tryggingarsjóðs innistæðueigenda í bönkum. Vaxtabyrði á lánum vegna sjóðsins ætti ekki að vera þyngri hér en í Bretlandi og Hollandi. Dagurinn var ekki liðinn, áður en Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, blés skoðun Gros út af borðinu. Ætli Indriði hafi ekki farið í smiðju til hollenskra eða breskra embættismanna til að komast að niðurstöðu? Þannig hefur hagsmunagæslu Íslands í Icesave-málinu áður verið háttað.
Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í ESB-málefnum, gerir lítið úr því í Morgunblaðinu í dag, að beitt sé lögfræðilegum rökum gagnvart Evrópusambandinu. Þetta sýnir vanþekkingu á því grundvallaratriði allra ákvarðana á vettvangi ESB, að lögheimildir séu fyrir þeim. Sé ekki um slíkar heimildir að ræða, dugar ekki að hefja um þær pólitískar umræður. Á vettvangi ESB komust ESB-lögfræðingar að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar ættu að bera skaðann vegna hins veikburða regluverks um banka með starfsstöðvar í fleiri en einu landi. Þessari lögfræðilegu niðurstöðu hefur verið beitt gegn Íslandi síðan, án þess að ESB-ríki vilji láta reyna á réttmæti hennar fyrir dómstólum.
Hagkaup bjóða nú viðskiptavinum sínum að kaupa vöru fyrir vaxtalaust lánsfé með fyrsta gjalddaga 5. mars 2010 . Kortafyrirtækjunum er þannig ögrað, gjalddagi þeirra er mánuði fyrr. Þeir, sem taka þessu kostaboði Hagkaupa, líta örugglega á fyrirtækið sem bjargvætt. Jafnframt fá Hagar meðaumkun í erfiðu samningaferli um tugmilljarðaskuld við Arion banka, sem hefur frestað fram yfir jólavertíðina að taka á málum 1998/Haga. Líklega fjármagnar bankinn þessa samkeppni Hagkaupa við kortafyrirtækin í þeirri trú, að hann fái meira en ella upp í skuldir Haga að vertíðinni lokinni.