20.11.2009

Föstudagur, 20. 11. 09.

Lauk við að lesa bók Styrmis Umsátrið. Hún er í senn lýsing á því, sem hefur gerst, skilgreining á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna eftir hrun og hugmynd um skynsamlegustu leið til að takast á við innri spennu í samélaginu.

Egill Helgason hefur allt á hornum sér vegna Umsátursins. Endurspeglar það ofnæmi hans fyrir Styrmi sem ritstjóra Morgunblaðsins. Minnir helst á uppnám og reiði Egils, eftir að ég birti ljóð úr ljóðabálknum Hrunadansinn hér á síðunni og vakti athygli á litlu áliti höfundarins, Matthíasar  Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á álitsgjöfum.

Líklegt er, að Egill hafi lesið gagnrýna úttekt Styrmis í Umsátrinu á hinum talandi stéttum og réttilega tekið hana til sín. Auk þess er Styrmir eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. ESB-andstæðingar eru í sérskúffu hjá Agli og ekki hátt skrifaðir, eins og sjá mátti á nýlegum óvildarskrifum hans um Ásmund Einar Daðason, þingmann vinstri-grænna og nýkjörinn formann Heimssýnar.

Á sínum tíma var starfsmanni á fréttasviði RÚV vikið til hliðar vegna orða um Baug og Bónus á vefsíðu sinni. Þegar Páll Magnússon, útvarpsstjóri, er spurður, hvort samræmist kröfum um óhlutdrægni starfsmanna RÚV, hvernig Egill vegur að mönnum og málefnum á vefsíðu sinni samhliða því að stjórna tveimur sjónvarpsþáttum, segir Páll, að ekki skipti máli, hvað útvarpsmenn segi á einkavefsíðum sínum. Jafnræði er ekki haft í hávegum, þegar æðstu stjórnendur RÚV  vega og meta starfsmenn sína.

Ólíklegt er, að Umsátrið verði kynnt í Kiljunni eða Silfri Egils. Rétt er að minna á, að Egill Helgason hefur að minnsta kosti tvisvar verið með Jón F. Thoroddsen í sjónvarpsþáttum sínum, en hann hefur skrifað lélegustu bókina um hrunið. Egill segir bókina skyldulesningu.

Meginmál

Eining