4.11.2009

Miðvikudagur, 04. 11. 09.

Í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagslegri stöðu Íslands í ljósi þeirra skilyrða, sem sett voru af sjóðnum, segir, að tafir hafi orðið á endurreisnarstarfinu hér vegna veikleika innan íslenska stjórnkerfisins og stjórnsýslan ráði tæplega við viðfangsefni sín eftir hrunið. Sérfræðingar AGS orða þetta svo:

„Iceland's political crisis contributed to delays, but so did administrative bottlenecks within Iceland's small institutions. Going forward, the complex program is likely to continue to challenge Iceland's administrative capacity. In this situation determined and full political support for the program is essential.“

Sérfræðingarnir telja, að mjög reyni á íslenska stjórnsýslu áfram við þetta verkefni. Annað verkefni, Icesave-málið, hefur einnig reynst íslensku stjórnmálakerfi og stjórnsýslu þungt í skauti. Misheppnaður samningur frá 5. júní hefur leitt til togstreitu milli ríkisstjórnar og alþingis og enn hefur ekki verið unnið úr henni.

Þriðja stórmálinu hefur síðan verið ýtt úr vör, aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kynnti í dag samninganefnd Íslands. Ber hún þess merki, að hann vogi sér varla út fyrir raðir starfsmanna utanríkisráðuneytisins, núverandi og fyrrverandi.  Undir stjórn Össurar er utanríkisráðuneytið gengið í Evrópusambandið. Viðræðurnar við Brussel-valdið munu af hálfu þessarar nefndar snúast um útfærslu á tæknilegum athugasemdum frá Brussel en ekki stefnu eða skilyrði af Íslands hálfu.

Ráði íslenska stjórnkerfið tæplega við að vinna samkvæmt umsaminni verkáætlun við AGS, er borin von, að haldið verði á hagsmunum Íslands af þeim þunga, sem þarf, af ESB-viðræðunefndinni. Ætla hefði mátt, að reynslan af Icesave-samningsklúðrinu hefði kennt ríkisstjórninni eitthvað í þessu efni. Svo er því miður ekki.