25.11.2009

Miðvikudagur, 25. 11. 09.

Í dag ræddi ég við Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra, um bók hans Umsátrið og birtist samtal okkar klukkan 21. 30 í kvöld á sjónvarpsstöðinni ÍNN

Fyrr í kvöld sá ég umræðuþátt á ÍNN í umsjá Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann ræddi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um skattamál. Hröktu þeir á skýran hátt áróðurinn gegn skattastefnu undanfarinna ára og sýndu veikleika í málflutningi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

ÍNN er sjónvarpsstöð, sem Ingvi Hrafn Jónsson stofnaði og heldur úti. Hún er einstæður og merkilegur fjölmiðill. Að unnt skuli á þessum grunni og með vaxandi áhorfi að halda úti sjónvarpsstöð, sem nær til alls landsins, sýnir, að fjölmiðlun hefur tekið á sig nýja mynd á ljósvakanum.

Vaxtarbroddur í fjölmiðlun er mestur í netheimum um þessar mundir. Þótt Morgunblaðið haldi úti mest sóttu vefsíðu landsins, mbl.is, stendur blaðið frammi fyrir sama vanda og aðrir prentmiðlar: Að finna örugga fótfestu í nýju og gjörbreyttu umhverfi. Augljóst er, að blaðið stendur Fréttablaðinu feti framar við flutning frétta og annars efnis. 

Fréttablaðið er hallt undir Samfylkingu og ríkisstjórnina. Þarf enginn að efast um, að sú staðreynd skiptir máli, þegar Jóhanna og Steingrímur J. velta fyrir sér framtíð 1998/Haga