28.11.2009

Laugardagur, 28. 11. 09.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra,  sendi frá sér yfirlýsingu í dag:

„Vegna frétta sem birst hafa í Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu í dag og í gær um afskipti undirritaðs af málefnum Haga og 1998 og afgreiðslu Arion banka á þeim skal tekið fram að þessar fréttir eru tilhæfulausar með öllu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið beitti sér ekki fyrir því að afgreiðslu mála Haga og 1998 yrði frestað af hálfu Arion banka og hefur engin önnur afskipti haft af þessu máli.”

Viðskiptablaðið hafði flutt frétt um, að Gylfi, hefði beitt sér fyrir frestun á uppgjöri Haga/1998, þar til Arion banki yrði kominn í hendur nýrra eigenda, það er ný-einkavæðing hans í höndum kröfuhafa væri komin til framkvæmda.

Augljóst er, að Gylfi vill þvo hendur sínar af þessu máli. Hafa ber í huga, að hann er „ópólitískur“ ráðherra og ólíklegt, að hinn vinstri-græni formaður stjórnar Arion banka snúi sér til hans. Til að leita sér pólitísks skjóls snýr formaðurinn sér því til Steingríms J. Sigfússonar en ekki til Gylfa.

Steingrímur J. og Jóhanna hafa pólitískan hag af því að Jóhannes í Bónus fari með málefni Haga í því skyni að veikja Morgunblaðið á þann hátt, sem hann leitaðist við að gera í grein í Fréttablaðinu og ég ræddi hér í gær vegna útleggingar Egils Helgasonar á henni. Egill kaus að gefa til kynna, að eigendur BYKO, Krónunnar og Nótaúns sniðgengju Fréttablaðið sem auglýsendur. Lesendur þurfa ekki annað en fletta Fréttablaðinu í dag til að sjá, hve fráleitt álit Egils er.