Föstudagur, 06. 11. 09.
Vafalaust hefur fleirum en mér brugðið við að heyra í hádegisfréttum RÚV, að helsta markmið Steingríms J. Sigfússonar í skattamálum væri að lækka skatta. Fyrir fáeinum dögum var hann glaðbeittur yfir því í fréttum Stöðvar 2, að hann ætlaði að hækka skatta til að ná í skottið á Svíum og Dönum. Nú segist hann ætla að beita sér fyrir lækkun skatta frá því, sem ætla má af fjárlagafrumvarpi hans.
Hvað olli sinnaskiptum Steingríms J.? Ekki var sagt frá því í fréttinni. Raunar var þess ekki getið í hádegisfréttunum, að um sinnaskipti væri að ræða. Lýsing á þeim, svo að ekki sé talað um skýringu, hefði aukið gildi fréttarinnar.
Á allra vitorði er, að Steingrímur J. hefur tekið u-beygju í öllum helstu stórmálum, frá því að hann kynnti afstöðu sína til þeirra í kosningabaráttunni. Þetta hefur hann gert til að ná í ráðherrasæti. Hitt er nýmæli, að hann snúist á punktinum vegna stefnu, sem hann hefur sjálfur mótað og kynnt.