1.1.2011

Jákvæðni í stað bölmóðs

Síðdegis á gamlaársdag tók ég bók af tilviljun úr skápnum og voru þar komnar Sögur Þórhalls biskups sem Almenna bókafélagið gaf út sem gjafabók í desember 1961. Í formála segir Tómas Guðmundsson, skáld, að sögurnar í bókinni séu allar sóttar í Nýtt kirkjublað sem Þórhallur biskup Bjarnason gaf út á árunum 1906 til 1916. Þá færir Tómas forsetafrú Dóru Þórhallsdóttur, eiginkonu Ásgeirs Ásgeirssonar, sérstakar þakkir fyrir að heimila endurprentun  „hinnar merku minningargreinar, sem hún reit á aldarafmæli föður síns, 2. desember 1955, og birtist þá í Kirkjuritinu.“ Tómas segir:

„Hófsemd og innileiki fer sjaldgæflega saman í þessari ritgerð og öll er hún minnisverð heimild um íslenzkt menningarheimili, sem stóð óvenjutraustum fótum í fornum þjóðlegum erfðum, en hélt að sama skapi hlýrri hendi yfir öllu, sem horfði til nýrrar ræktunar manns og moldar.“

Ástæðan fyrir því að ég segi frá þessu hér við upphaf nýs árs er kafli í minningargrein frú Dóru þar sem hún segir frá veikindum móður sinnar Valgerðar Jónsdóttur, sem varð fyrsti kvenkennari við barnaskólann í Reykjavík. Kenndi hún dönsku og hannyrðir. „[M]óðir mín var það, sem þá var kallað „dama“, einstök að látprýði og skapfestu. Allt lék í lyndi, meðan hennar naut við.“ Þá segir frú Dóra:

„Við börnin urðum þess vör, að hún gekk ekki heil til skógar, hélt oft hendi undir vinstra brjóst. Veikin ágerðist, og snemma á árinu 1910 lagðist hún í rúmið. Í þrjú ár lá hún rúmföst, og andaðist þá, aðeins 49 ára gömul. Miklar þjáningar fylgdu sjúkdómi hennar, en þær bar hún með einskærri ró og festu. Kvartaði aldrei og var glöð, kát og stjórnsöm. Hún sótti styrk í bænina. Ég svaf í sama herbergi, og margar nætur heyrði ég, hvernig hún glímdi í bæn við kvalirnar, og bað fyrir ástvinum sínum. Flest kvöld vorum við við rúm hennar, og var jafnan lesin bæn eða sálmur. Það var henni mikil fróun. Á blöðum, sem eftir hana fundust, var þetta ritað með blýanti: „Ef einhver hluti líkama þíns er veikur, þá getur það hjálpað þér stórmikið, að þú hugsir þér, að smáagnir í þessum líkamshluta séu í besta lagi... Þú verður að hugsa þér þennan part heilan .... Þessari hugsun þinni fylgir áreiðanlega lífgandi og heilsugefandi afl, og þig mun fljótt undra, hve skjót áhrif hugsunin hefir... Maður þarf að hafa fullt traust á sjálfum sér og Guði.“  Hér talar þjáð kona, sem hefir reynt þetta á sjálfri sér. Mættum vér draga af því nokkurn lærdóm um sálarstyrk og bænarkraft.“

Þessi frásögn er hófsöm og innileg, svo að stuðst sé við orð Tómasar, skálds. Mig langar sérstaklega að nefna orðin sem Dóra hefur eftir Valgerði, móður sinni, um að beina huga sínum að því að „smáagnir“ í líkamshluta séu í besta lagi til að sigrast á sársauka eða veikindum.

Nýlega var mér bent á þrjá þýska sjónvarpsþætti um heilun og viðurkenningu þýska heilbrigðiskerfisins á gildi hennar til lækninga. Þar er meðal annars sagt frá ungum sellóleikara sem fær heilaæxli, lamast og nær litlum bata þrátt fyrir skurðaðgerðir. Hann fer til sérfræðings í Feldenkrais aðferðinni og nær furðulega góðum og skjótum framförum. Rætt er við heilarann. Hann segir unga manninn hafa beint hugsun sinni að því að eyða æxlinu. Feldenkrais-heilarinn sagðist  hins vegar hafa sagt honum að einbeita sér að því að fjölga heilbrigðu frumunum, „smáögnunum“, og auðvelda þeim þannig að ýta æxlinu til hliðar – að leggja meiri áherslu á hið jákvæða í stað hins neikvæða.

Því miður hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir fallið í þá gryfju að leggja áherslu á hið neikvæða. Ýta undir óvild í garð andstæðinga sína. Ala á nauðsyn þess að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum sem hún telur bera ábyrgð á hruninu. Ríkisstjórnin situr enn af því að reglulega hittast ráðherrar og þingmenn þeirra til að herða sig í þeirri trú að þeim beri að þrauka þrátt fyrir magnleysi, af því að annars sé hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn komist til áhrifa.

Ólafur Ragnar Grímsson vék að hinu neikvæða hugarástandi stjórnvalda í nýársávarpi sínu 1. janúar 2011 þegar hann sagði:

„[N]ú eru rösk tvö ár frá hruni bankanna, tímabært að við hættum að láta illmælgi og hatursfulla orðræðu hamla för. Bölmóður getur gert að engu áform um umbætur.“

 Um leið og ég tek undir þessu orð flyt ég lesendum bestu óskir um farsælt nýtt ár með þökkum fyrir hin liðnu.