23.1.2011

Sunnudagur 23. 01. 11.

Furðu vekur hve Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, hefur tekist að þvæla sér inn í vandræðamál sem teygja sig víða um lönd. Hún átti hlut að því að kalla hingað til lands hóp aðgerðasinna í umhverfismálum til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og álveri á Austurlandi. Í hópnum reyndist vera flugumaður á vegum bresku lögreglunnar sem fylgdi þessum hópi land úr landi. Hann hefur nú snúið baki við lögreglunni og leitast við að koma sér í mjúkinn hjá Birgittu með því að ala á grunsemdum í garð lögregluyfirvalda þeirra landa, sem hann sótti heim.

Þegar í óefni er komið velur Birgitta þann kost að gera aðra tortryggilega vegna  þessara erlendu samstarfsmanna sinna. Nú vill hún klína því á íslensku lögregluna að flugumaður var í hópnum sem hún dró til landsins og heimtar opinbera rannsókn á málinu!

Staðreynt er að Birgitta og þingmenn Hreyfingarinnar höfðu hér á sínum vegum í desember 2009 nokkra einstaklinga tengdum WikiLeaks sem sérhæfir sig í að safna opinberu efni og miðla því á vefsíðu sinni. Í herbergi sem þingmennirnir gátu nýtt var sett ómerkt og órekjanleg fartölva sem tengd var inn í tölvukerfi alþingis. Þegar bent var á að hugsanlega mætti rekja þessa tölvu til erlendra vina Birgittu las hún sér til málsvarnar ljóð í ræðustól alþingis. Hún gat ekki neitað tengslum við WikiLeaks-mennina.

Vegna þessara WikiLeaks-tengsla hefur Bandaríkjastjórn óskað eftir persónuupplýsingum um Birgittu frá Twitter-samskiptasíðunni.  Þegar Birgitta frétti af rannsókninni í Bandaríkjunum sneri hún sér til íslenskra ráðherra með upphrópunum og heimtaði afskipti Alþjóðaþingmannasambandsins.

Að breyta þessum vandræðagangi í íslenskt vandamál af því að Birgitta var kjörin hér á þing og skuli þess vegna njóta sérréttinda stangast á við allt mótmælastand þingsmannsins. Af hverju tekur hún ekki sjálf slaginn við þá sem hún telur beita sig rangindum? Væri hún utan þings er víst að hún úthrópaði þá sem nýttu sér friðhelgi þingmanna.

Framkoma Birgittu eykur ekki virðingu fyrir þingmönnum og síst af öllu að hún hafi kallað hingað til starfa með þingflokki Hreyfingarinnar forráðamenn WikiLeaks í því skyni að undirbúa löggjöf til að veita þessum sömu mönnum skjól og svigrúm til að athafna sig hér á landi.

Er ekki tímabært að þingmenn taki sig saman og segi hingað og ekki lengra?