19.1.2011

Miðvikudagur 19. 01. 11.

Furðulegar fréttir berast af vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem offors Össurar Skarphéðinssonar er svo mikið við að laga sig að kröfum ESB að hann heimtar að Jón Bjarnason sé rekinn úr ráðherraembætti svo að unnt sé að hefja viðræður við ESB um landbúnaðarmál.

Eitt er þó að Össur setji fram þessar kröfur annað að Jóhanna og Steingrímur J. kalli Jón á sinn fund og tilkynni honum að hann verði að víkja sæti í þágu ESB-málstaðarins. Þess verður ekki vart lengur að Steingrímur J. taki upp hanskann fyrir Jón Bjarnason, þrátt fyrir samþykkt vinstri-grænna gegn samruna ráðuneyta og brotthvarfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta sýnir fyrst og fremst hve djúpstæður klofningur er orðinn innan vinstri-grænna.

Hverfi Jón Bjarnason úr ríkisstjórn aukast líkur á því að kallað verði á ESB-sinnaða framsóknarmenn til að aðstoða ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslum á þingi. Þar beinist athygli að Siv Friðleifsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni og Birki Jóni Jónssyni.

Á bakvið tjöldin gæla stjórnmálamenn við að leið út úr núverandi stjórnarkreppu í landinu sé myndun þjóðstjórnar. Stjórnarflokkarnir meina ekkert með því tali forsytumenn þeirra vita hins vegar að með þeim spuna draga þeir úr slagkrafti stjórnarandstöðunnar. Það virðist skila árangri.