20.1.2011

Fimmtudagur 20. 01. 11.

Henry Kissinger var gestur Charlie Rose á Bloomberg-stöðinni og ræddi samskipti Bandaríkjanna og Kína. Ég hlustaði oft á hann hugsa upphátt á fundum á áttunda og níunda áratugnum. Hann verður 88 ára í maí og hugsun hans er jafnskýr og áður. Rök hans eru skýr og köld. Þegar Charlie spurði hann um hvernig ætti að ræða um mannréttindamál við Kínverja, sagði hann að það færi eftir því hver talaði við hvern. Bandarískir stjórnmálamenn sætu undir miklum þrýstingi heima fyrir til að beita sér í mannréttindamálum gagnvart kínverskum ráðamönnum. Eftir því sem ofar menn færu í valdastiganum yrðu menn að sýna meiri varkárni vildu þeir ekki slíta sambandi við viðmælanda sinn. Bandaríkjaforseti yrði þannig alltaf að hafa á bakvið eyrað tvö sjónarmið: hvert vil ég samand Bandaríkjanna og Kína verði; hvernig vil taka á málum með tilliti til baráttu á heimavelli. Hann hlyti að leggja áherslu á að sambandið rofnaði ekki við Kínverja.

Hann segir að Kínverjar þrái ekki að ráða heiminum. Þeir vilji hins vegar njóta virðingar í heiminum.

Frönsk kvikmyndavika hófst í kvöld með sýningu á myndinni Potiche með stórleikurunum Catherine Deneuve og Gérard Depardieau í stórum hlutverkum. Góð kvöldskemmtun.