18.1.2011

Þriðjudagur 18. 01. 11.

Steingrímur J. Sigfússon var spurður um það í dag hvort hugmyndir hans um að ríkið næði aftur eignarhaldi á HS Orku yrðu ekki til þess að fæla erlenda fjárfesta frá því að koma til landsins. Hann hélt nú ekki. Þeir biðu í röðum og létu ekki svona nokkuð hafa áhrif á sig.

Fyrir skömmu ritaði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, grein þar sem hann sagði að óhjákvæmilegt væri að ganga í ESB og losna við krónuna til að erlendir fjárfestar hefðu áhuga á að binda fé sitt hér á landi.

Áður en Árni Páll skrifaði grein sína sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í viðtali við Ingva Hrafn Jónsson á ÍNN að að erlendir fjárfestar hikuðu ekki af efnahagslegum ástæðum heldur vegna pólitískrar óvissu í landinu.

Hið undarlega er að það er ekkert samhengi í íslenskum fjölmiðlum í lýsingu á því sem er að gerast í efnahags- og fjármálastjórn landsins. Það er eins og engin prinsipp þurfi að vera skýr. Eftir að hafa fylgst mánuðum saman með þróun mála á evru-svæðinu um vanda þess og ESB er augljóst að þar er þráður í framvindunni. Menn takast á við skýr viðfangsefni og fjölmiðlar ná utan um hver þau eru.

Hér er ógjörningur að halda utan um mál í umræðum því að ríkisstjórnin segir eitt í dag og annað á morgun eða ráðherrar lýsa ólíkum sjónarmiðum sama daginn um þau mál sem eru á döfinni. Hið versta er að þeir segja ekki alltaf satt heldur tala eins og þeir halda að einhverjir hópar vilja heyra. Fjölmiðlar halda þeim ekki skipulega við efnið og enn þykja fréttir frá því sem gerðist 2007 eða 2008 meira spennandi en af óstjórn samtímans.

Þessi staða mála er til marks um vaxandi stjórnleysi enda hefur Jóhanna Sigurðardóttir fyrir löngu misst þráðinn í landsstjórninni. Nú reynir hún að draga að sér athygli sem fésbókarfærslum sem gera illt verra eða sýna ótrúlegt dómgreindarleysi eins og þegar hún reynir að skrifa sig í mjúkinn hjá þeim sem sitja undir ákæru fyrir að ráðast á Alþingishúsið.