5.1.2011

Miðvikudagur 05. 01. 11.

Eins og spáð var hér á síðunni í gær tókst að búa þannig um hnúta á þingflokksfundi vinstri-grænna í dag að ríkisstjórnin lifir áfram með stuðningi flokksins. Ágreiningsefni eru hins vegar ekki úr sögunni og með öllu óvíst um stuðning við einstök mál á þingi, svo að ekki sé minnst á meginágreininginn við Samfylkinguna um aðildina að ESB.

Steingrímur J. sagði að fjölmiðlar hefðu gert of mikið úr ágreiningi meðal vinstri-grænna og vandræðum ríkisstjórnarinnar. Hann lét þess ógetið að Jóhanna Sigurðardóttir sýndi þremenningunum sem greiddu ekki atkvæði með fjárlagafrumvarpinu þann sóma að segjast ekki líta á þá sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Hvaða yfirbót þurfa þau að gera til að verða aftur gjaldgeng sem stjórnarþingmenn að mati forsætisráðherra?

Stundum heyrist því fleygt að Steingrímur J. segist ráða öllu í ríkisstjórninni. Jóhanna geti ekkert án sín. Sé þetta rétt beitir Steingrímur J. ofurvaldi sínum aðeins bakvið luktar dyr. Út á við skelfur hann í hnjáliðum andspænis Jóhönnu og gagnvart kröfu Samfylkingarinnar um skilyrðislausa hlýðni í ESB-málinu. Skyldi þetta breytast eftir þingflokksfund vinstri-grænna í dag?

Nú hefst Samfylkingin ótrauð handa við að bola Jóni Bjarnasyni úr ráðherrastóli. Þingflokkur hennar telur ekki neitt að óttast þótt vinstri-grænir láti eins og þeim standi ekki á sama. Vinstri-grænir hafa hrópað svo oft: Úlfur! Úlfur! án þess að nokkur hætta sé á ferðum að neyðaróp þeirra hafa ekki lengur neitt gildi.