8.1.2011

Laugardagur 08. 01. 11.

Eins og áður sagði sat ég 6. janúar fyrir svörum í þætti um ESB-málefni, ESB nei eða já, hjá þeim Jóni Baldri L'Orange og Elvar Örn Arason hér má hlusta á þáttinn.

Elvar Örn er framkvæmdastjóri samtakanna Sterkara Ísland, sem vilja Ísland í ESB. Í einni spurningu hans birtist það sjónarmið að án aðildar að ESB stæðu Íslendingar í erfiðum sporum á alþjóðavettvangi. Hvað ég vildi gera í því máli? Ég minnti á að við hefðum gott samband við ESB á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samkomulagsins. ESB hefði ekki óskað eftir neinni breytingu á þessu samstarfi. Frumkvæðið kæmi frá Samfylkingunni sem meðal annars vildi ýta undir úlfúð innan annarra stjórnmálaflokka hér á landi með stefnu sinni.

Við blasir hvernig Samfylkingin hefur rekið fleyg í þingflokk vinstri-grænna, þar sem allt leikur á reiðiskjálfi vegna ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú magnast ESB-órói innan Framsóknarflokksins eins ég lýsi hér.

Í þættinum spurði Jón Baldur, sem er andvígur ESB-aðild, mig um stefnu Sjálfstæðisflokksins með þeim formerkjum að um hana ríkti einhver óvissa. Ég sagði mikinn misskilning að stefna flokksins væri óskýr, hún væri þvert á mót afdráttarlaus eins og samþykkt hefði verið á landsfundi sjálfstæðismanna. Á hinn bóginn teldu aðildarsinnar sér henta að láta eins og einhver óvissa ríkti um stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þessi áróður um óljósa ESB-stefnu Sjálfstæðisflokksins helgast af viðleitninni til að nota ESB-málið í .því skyni að kljúfa stjórnmálaflokka í þágu Samfylkingarinnar. Hin situr ein föst í ESB-farinu og vill fá annarra flokka fólk til að ýta sér upp úr því.