17.1.2011

Mánudagur 17. 01. 11.

Furðulegt er að fylgjast með því í sjónvarpi þegar syngjandi fólk undir forystu Bjarkar Guðmundsóttur afhendir Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni mótmæli gegn sölunni á HS Orku að Jóhanna segist vera sammála því sem í mótmælunum segir. Hún sat þó sem forsætisráðherra þegar gengið var frá sölunni. Spyrja má: Hreyfði hún legg eða lið til að stöðva hana? Gerði Jóhanna annað en setja á laggir eina nefnd eða fleiri til að dreifa athygli frá eigin ábyrgð og ríkisstjórnarinnar? Síðan heldur Jóhanna í þingið og segir að betra sé að ræða við erlendan kaupanda á HS Orku en setja lög um að ríkið taki fyrirtækið eignarnámi.

Hve lengi ætla þingmenn Samfylkingarinnar að bjóða þjóðinni þennan skrípaleik? Þeir bera höfuðábyrgð á því að Jóhanna situr hér sem forsætisráðherra. Ætla þeir að styðja frumvarp til laga um eignarnám á HS Orku? Samfylkingarliðið hefur unnið að því með vinstri-grænum að færa þjóðfélagið áratugi aftur í tímann með hækkun skatta.

Nú ganga þingmenn Samfylkingar fram í anda Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og boða hér eilíf gjaldeyrishöft nema gengið sé í ESB og undir ok miðstýringar frá Brussel í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Rit Seðlabanka Íslands um úttekt á peningastefnu Íslands er lagt til grundvallar í þessum afarkostaboðskap Samfylkingarinnar. Úttektin er gerð af sömu starfsmönnum seðlabankans og mótuðu peningastefnuna fyrir hrun. Hvað hefðu menn sagt ef stjórnendum bankanna fyrir hrun hefði verið falið að gera úttekt á aðdraganda hrunsins? Hver hefði lagt slíka skýrslu til grundvallar við mótun nýrrar stefnu í bankamálum?