9.1.2011

Sunnudagur 09. 01. 11.

Á Evrópuvaktinni hafa í dag birst tvær frásagnir í tilefni af hinum sérkennilegu tengslum Íslendinga við WikiLeaks síðuna, þar sem birst hafa bandarísk leyndarskjöl.

Annars vegar er endursögð löng fréttagrein úr The New York Times þar sem sagt er frá því að bandarískur dómari sé að safna upplýsingum um fimm einstaklinga sem tengjast WikiLeaks og hafi af því tilefni snúið sér til Twitter sem heldur úti samskiptasíðu. Twitter hafði síðan samband við Birgittu Jónsdóttur, alþingismann, sem er ein fimmenningana. Birgitta brást við bréfinu frá Twitter á þann veg að klaga Bandaríkjastjórn í Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Af fjölmiðlum laugardaginn 8. janúar mátti ætla að alvarleg milliríkjadeila Íslands og Bandaríkjanna væri að hefjast. Sé frásögnin í The New York Times lesin sýnist með öllu ástæðulaust fyrir íslensk stjórnvöld að blanda sér í þetta mál, jafnvel þótt Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður, eigi í hlut. Leyfi Birgitta Twitter ekki að láta umbeðnar upplýsingar í té er það mál milli hennar og Twitter, en lögfræðingar Twitter hljóta að gæta hagsmuna þeirra sem láta vefþjónustunni í té upplýsingar.

Athyglisvert er að í The New York Times er Birgittu lýst sem fyrrverandi aðgerðasinna innan WikiLeaks-samtakanna. Að hún sé fyrrverandi skýrist ef til vill við lestur hinnar frásagnarinnar á Evrópuvaktinni . Þar er vitnað í grein í bandaríska tímaritinu Commentary um WikiLeaks. Í greininni er sagt frá stjórnsemi og hroka Julians Assange innan WikiLeaks-samtakanna og hann hafi sagt ónafngreindum Íslendingi að „piss off“ - fara til fjandans - þegar honum mislíkaði gagnrýni hans. Það skyldi þó aldrei hafa verið Birgitta sem fékk þessar trakteringar hjá leiðtoganum?