24.1.2011

Mánudagur 24. 01. 11.

Þegar ég átti samstarf við Eirík Jónsson, þáverandi formann Kennarasambands Íslands, sem menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002 kunni ég því ágætlega. Þótt oft bæri nokkuð á milli tókst að lokum að finna lausn í sátt. Þetta átti meðal annars við um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og fjárhagsleg álitaefni í því sambandi.

Sameiginleg nefnd vann að því að grandskoða alla kostnaðarþætti við skólastarfið og síðan var lagt mat á tekjuþörfina áður en frá öllu var gengið í fullri sátt. Eftir að reynsla hafði komist á framkvæmd flutningsins og skólarekstur á vegum sveitarfélaganna gerðu óhlutdrægir aðilar úttekt á stöðunni og var staðfest að allt hefði staðist eins og um var rætt.

Með þetta í huga er mér óskiljanlegt hvers vegna Eiríkur stígur fram í Fréttablaðinu í dag og heldur því fram að árið 1996 hafi sveitarfélögin tekið grunnskólana yfir „fyrir tekjustofna sem ljóst var að gátu aldrei staðið undir kostnaði“ við rekstur skólanna. Hann sakar meira að segja sveitarfélögin fyrir að vilja ekki meira fé en um var samið, þótt kennarasambandið hafi hvatt þau til þess. Telur hann niðurstöðuna 1996 ástæðuna fyrir því að síðan hafi mörg sveitarfélög „átt í erfiðleikum með að reka skólana.“ Nú bitni þetta líka á leik- og tónlistarskólum þar sem sveitarsjóðir séu hvorki  hólfaðir niður eftir skólastigum né öðru.

Þessi skrif Eiríks eru hrein óvirðing við þá sem unnu samviskusamlega og skipulega að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Þeir eiga annað skilið frá þáverandi formanni Kennarasambands Íslands en ávirðingar af þessum toga. Raunar er óskiljanlegt hvað fyrir Eiríki vakir með þessum rangfærslum annað en koma illu af stað. Sé það gert vegna kjaradeilu kennara við sveitarfélögin er óhætt að segja að Eiríkur leggi ekki gott til hennar.