10.1.2011

Mánudagur 10. 01. 11.

Þingflokkur vinstri-grænna kom á ný saman til fundar í dag í leit að öðrum samnefnara en þeim að verja ríkisstjórnina vantrausti. Ríkisstjórnin var mynduð sem meirihlutastjórn. Nú ræða stjórnmálafræðingar gjarnan  um hana sem minnihlutastjórn og bæta síðan við henni til málsbóta að minnihlutastjórnir sitji oft annars staðar á Norðurlöndum. Þessir spekingar ættu að fræða okkur um hvernig þessar norrænu minnihlutastjórnir fæðast. Er það ekki í umboði þjóðhöfðingjans sem felur einhverjum stjórnmálamanni að mynda ríkisstjórn?

Ólafur Ragnar veitti Jóhönnu Sigurðardóttur umboð til að mynda minnihlutastjórn 1. febrúar 2009. Framsóknarmenn lofuðu þá að verja stjórnina vantrausti. Eftir kosningar 25. apríl 2009 fékk Jóhanna umboð til að mynda meirihlutastjórn. Miðað við íhlutun Ólafs Ragnars í stjórnarmálefni, sem hann segir stundum nauðsynlega til að gæta heiðurs forsetaembættisins, er merkilegt ef hann lætur eins og ekkert sé þegar meirihlutastjórn breytist í minnihlutastjórn.

Ekkert af því sem nú gerist á vettvangi ríkisstjórnar eða fyrir tilstuðlan hennar ber þess merki að forsætisráðherra eða einstakir ráðherrar séu með hugann við ábendingar rannsóknarnefndar alþingis, þar sem lögð var áhersla á skýra ábyrgð og gegnsæja stjórnsýslu.