Sunnudagur 10. 04. 16
Á vefsíðunni andriki.is birtist þriðjudaginn 5. apríl:
„Gamla góða.
Við bankahrunið og atlögu ofbeldismanna að alþingi stóð hún eins og klettur í hafinu.
Hún opnaði leið þegar ítrekað stóð til að leggja Icesave klyfjarnar á landsmenn.
Hún girðir fyrir að í óðagoti sé mögulegt að leggja lýðveldið inn í ríkjasamband eins og hvern annan grip í sláturhús.
Þetta gerir hún meðfram því að tryggja mönnum friðhelgi einkalífs, eignarrétt, atvinnufrelsi og önnur helstu mannréttindi í farsælasta lýðræðisríki sögunnar.
Hún hefur sjálf varist verstu tilraunum til að þynna þessi mannréttindi og kollvarpa stjórnskipan landsins.
Í dag bauð hún svo upp á hæfilegt orðalag sem reyndur forseti gat nýtt til að fipa forsætisráðherra sem ætlaði einn og óstuddur að sækja sér þingrofsskjöl eins og hvert annað barefli til að lemja á 37 þingmönnum í eigin stjórnarmeirihluta.
Gamla góða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“
Þetta er vel saminn og réttur texti. Laugardaginn 9. apríl sýnast Andríkismenn taka undir þá skoðun Skúla Magnússonar héraðsdómara sem hann reifaði í grein í Morgunblaðinu þennan sama dag að þingmenn ættu að sitja að öllu óbreyttu fram í apríl 2017. Skúli segir:
„Auðvitað getur komið til þess að sitjandi ríkisstjórn biðjist lausnar og óski þess við forseta lýðveldisins að hann rjúfi þing og boði til þingkosninga. Einkum á þetta við þegar ekki reynist unnt að mynda eða viðhalda starfhæfri ríkisstjórn, svo sem dæmin sýna. Slík staða er ekki uppi í dag.
Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að svo sé gert? Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin.“
Hér er staðan sú að fráfarandi forsætisráðherra vildi opna þingrofsheimild, að eigin sögn til að hindra upplausn í samstarfsflokknum. Hann fékk ekki heimildina. Forsætisráðherrann vék, ný ríkisstjórn kom til sögunnar og stjórnarflokkarnir ætla að verja hana falli við úrlausn brýnna mála, að minnsta kosti á meðan þetta þing situr. Þetta er pólitískur veruleiki sem rúmast innan hinnar „gömlu góðu“ en brýtur ekki gegn henni.
Flokkurinn sem nú nýtur mests fylgis, píratar, vilja semja við aðra flokka fyrir næstu kosningar um að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir. Boða þeir stjórnarsáttmála um stjórnarskrárbrot? Píratar segjast hafa mestan áhuga allra flokka á góðum stjórnarháttum og ákvæðum í stjórnarskrá.