Miðvikudagur 06. 04. 16
Í dag ræddi ég við Svein Runólfsson landgræðslustjóra á ÍNN. Frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.
Eitthvað vefst fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra, að segja skilið við ráðuneyti sitt og ríkisstjórnina. Á fundi þingflokks framsóknarmanna í gær var eindreginn stuðningur við ákvörðun hans um að biðjast lausnar og gengu menn af fundinum í fullvissu þeirrar niðurstöðu. Flaug fréttin um heimsbyggðina og breytti umtali um Ísland vegna Panama-skjalanna.
Á tíunda tímanum að kvöldi þriðjudags 5. apríl, sama dags og menn töldu forsætisráðherra hafa sagt af sér, sendi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar frá sér tilkynningu á ensku þar sem stóð: „The Prime Minister has not resigned“ – forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér. Hins vegar kom fram að varaformaður Framsóknarflokksins yrði forsætisráðherra „for an unspecific amount of time“, það er um óákveðinn tíma.
Þessi tilkynning vakti forundran blaðamanna enda óskiljanleg í ljósi fyrri frétta sem þeir höfðu skrifað um afsögn ráðherrans. Hér er ekkert grátt svæði, ráðherrann er eða fer.
Embættismenn í forsætisráðuneytinu neita að svara fyrir þessa tilkynningu, hún hafi ekki verið borin undir þá fyrir dreifingu hennar og vísað er á Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann fráfarandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð hefur á þennan hátt viljað koma á framfæri því sem hann hefur áorkað sem forsætisráðherra, meginefni tilkynningarinnar er um það, án þess þó að horfast í augu við eigin afsögn.
Fyrr um daginn hafði Sigmundur Davíð notað FB-síðu sína til þess meðal annars að hóta að hann mundi fá þingrofsheimild undirritaða af forseta Íslands ef sjálfstæðismenn settu sig gegn sér á einhvern hátt. Boðskapinn setti hann á netið áður en hann hitti forseta.
Með forsætisráðherra voru embættismenn úr ráðuneyti hans, Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri og Ásgeir Geir Ágústsson, skrifstofustjóri yfirstjórnar ráðuneytisins, og ríkisráðstaskan eins og forseti orðaði það þegar hann lýsti því að hann hefði áttað sig á því þegar tilkynnt var um komu embættismannanna að ekki var um upplýsingafund hans og ráðherrans að ræða heldur embættisfund vegna þingrofs.
Forseti kallaði blaðamenn á sinn fund strax eftir brottför forsætisráðherra. Honum var greinilega brugðið og vildi skýra sína hlið – kannski vegna þess að forsætisráðherra hafði birt frásögn af fundi sínum með Bjarna Benediktssyni á netinu án vitundar og samþykkis Bjarna.
Síðdegis andmælti forsætisráðherra skilningi forseta á fundinum í sérstakri fréttatilkynningu.
Í dag hafa þeir setið fundi með forsætisráðherra varaformaður Framsóknarflokksins og þingflokksformaður. Fundur verður í þingflokknum kl. 18.00.