Föstudagur 08. 04. 16
Samtal mitt við Svein Runólfsson landgræðslustjóra á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.
Stjórnarandstaðan fór sneypuför gegn ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar á alþingi í dag. Tillaga hennar um vantraust var felld með 38 atkvæðum gegn 25. Niðurstaðan varð nákvæmlega sú sem Bjarni Benediktsson sagði að hún yrði þegar þeir Sigurður Ingi kynntu nýju ríkisstjórnina að kvöldi miðvikudags 6. apríl.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, hafði í hótunum um að staðið yrði gegn framgangi mála ríkisstjórnarinnar á þinginu sem sitja mun í sumar. Hann boðaði andstöðu í krafti þeirrar reiði sem flokkur hans og aðrir stjórnarandstæðingar hafa leitast við að magna í vikunni sögulegu sem nú er að ljúka.
Flótti pírata frá umræðum um málefni þjóðinni til heilla kemur ekki á óvart. Þingmenn pírata hafa ekki neitt málefnalegt umboð nema kannski í stjórnarskrármálinu og meira að segja þar er það óljóst. Helga Hrafni verður tíðrætt um það sem hann kallar „siðrof“, hæfilega óljóst hugtak fyrir þá sem vilja ekki festa hönd á neinu.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður vantraustsins en af ræðu hans mátti ráða að hann væri að þrotum kominn: „Ég get ekki meir,“ sagði hann í stað hefðbundinnar framsöguræðu og einnig:
„Ég hef setið og heyrt þúsundir mótmæla stefnu minni og þeirrar ríkisstjórnar sem ég var hluti af [ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.] og ég hef varist af hörku og verið algjörlega sannfærður um að ég vissi best og að leiðin sem við höfum valið væri sú eina rétta. Allir hlytu á endanum að sjá að ég hefði rétt fyrir mér. En ég get ekki horft framhjá því að afleiðingin af þeirri afstöðu var stærsta pólitíska tap Íslandssögunnar.“
Þarna vísar Árni Páll til afhroðsins sem Samfylkingin galt í þingkosningunum vorið 2013. Hann lætur þess ógetið að Jóhönnu Sigurðardóttur misheppnaðist að ná þeim fjórum markmiðum sem hún setti sér: að slá skjaldborg um heimilin, að uppræta kvótakerfið, að koma Íslandi í ESB og að breyta stjórnarskránni.
Staða núverandi ríkisstjórnar er allt önnur og miklu betri með vísan til framgangs stefnumála.
Þegar ummæli Árna Páls eru lesin ber einnig að hafa í huga að mikið hefur verið rætt við hann í fjölmiðlum undanfarið og minnkar fylgi Samfylkingarinnar og álit á Árna Páli í réttu hlutfalli við það ef marka má kannanir.